Innlent

Greiðslukortafærslur birtar

Við þingfestingu Baugsmálsins í gær lagði ákæruvaldið fram greiðslukortafærslur og töflur yfir úttektir ákærðra, en þær hafa ekki verið birtar áður. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er gefið að sök að hafa látið Baug hf. greiða fyrir sig alls um 12,5 milljónir króna með úttektum á Visa og Mastercard greiðslukortum Baugs frá 5. október 1998 til 2. maí 2002. Ákæruvaldið telur að um persónulegar úttektir Jóns Ásgeirs hafi verið að ræða og þær óviðkomandi Baugi. Brotið er talið varða við 247. grein hegningarlaga en þar kveður meðal annars á um að refsivert sé að nota peninga annars manns heimildarlaust í sjálfs sín þarfir. Fram kemur að skuldin hafi verið gerð upp við Baug. Hæstu einstöku úttektir nema hundruð þúsundum króna en þær lægstu aðeins nokkur hundruð krónum. Samkvæmt úttektarlistunum hefur Jón Ásgeir greitt fyrir föt, veitingar, skyndibita, fatahreinsun, myndbönd, bíóferðir og fleira. Hæsta úttektin nemur á sjöunda hundrað þúsund krónur fyrir föt eða skartgripi í verslun Gucci. Þær lægstu eru greiðslur á skyndibitastöðum og má sem dæmi nefna 450 króna úttekt á Kaffi Kjós, 540 króna úttekt hjá Aktu taktu og 370 króna úttekt hjá Borgarnesti á árinu 2001.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×