Konan var myrt með hnífi

Hnífur var notaður sem morðvopn að sögn heimilda fréttastofu þegar varnarliðsmaður myrti tvítuga varnarliðskonu á miðnætti í nótt. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Áverka var að finna á hnakka konunnar en ekki er víst hvort þeir hafi leitt dauða hennar, segir á vef Víkurfrétta. Íslensku konunni, sem talin er hafa orðið vitni að morðinu, hefur verið sleppt eftir yfirheyrslur. Varnarliðsmaður, grunaður um að hafa myrt varnarliðskonuna, er í haldi herlögreglunnar og rannsakar Lögreglan á Keflavíkurflugvelli málið ásamt rannsóknardeild sjóhersins. Von er á bandarískum rannsóknarmönnum frá Bretlandi til að aðstoða við að upplýsa málið.