Viðskipti innlent

Olíuútgjöld mun meiri en ætlað var

Olíureikningur Icelandair, eða Flugleiða, er orðinn einum milljarði hærri en gert var ráð fyrir um áramót. Sérstakt olíugjald, sem lagt hefur verið á hvern farmiða, hrekkur hvergi nærri upp í mismuninn. Að sögn Jóns Karls Ólafssonar forstjóra samsvarar hækkun á olíu frá áramótum um það bil 20 prósentum og nýverið var gripið til þess ráðs að hækka svonefnt olíugjald á hvern farseðil upp í 17 evrur eða rúmar 1300 krónur á hvern legg. Olíugjaldið í ár mun þó ekki skila nema broti upp í þær þúsund milljónir sem olíureikningurinn hefur hækkað um. Jón Karl rifjar upp að flugvélaeldsneyti sé allt að þrefalt dýrarara nú en það var fyrir þremur árum að olíutunnan var á 25 dollara. Verð á olíufatinu á heimsmarkaði nú er hins vegar komið yfir 66 dollara sem er nýtt met. Auk almenns óöryggis vegna hryðjuverka og takmarkaðs framboðs voru það fregnir af efnahagsvexti í Bandaríkjunum með tilheyrandi eldsneytisþörf sem juku á verðþrýstinginn, en olíuhreinsunarstöðvar hafa ekki undan. Þessu til viðbótar valda deilur Írans og alþjóðasamfélagsins vegna kjarnorkuáætlunar Írans nokkurri spennu sem hefur áhrif á verðið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×