Viðskipti innlent

Orlof sé fyrir almenna starfsmenn

Framkvæmdastjóri KEA hefur sagt starfi sínu lausu. Hann bað um að fá að fara í fæðingarorlof en stjórn KEA var því mótfallin. Stjórnarformaður KEA telur að lög um fæðingarorlof hafi fyrst og fremst verið sett til að tryggja réttarstöðu almennra starfsmanna. Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, á von á tvíburum og bað hann því um fæðingarorlof í samræmi við lög og reglur. Stjórn KEA taldi það óheppilegt þar sem það hefði leitt til þess að málefni KEA hefðu verið í biðstöðu um lengri tíma. Hann ákvað því að segja starfi sínu lausu og víkja strax fyrir nýjum manni. Andri segir að þar sem hann eigi von á tvíburum eigi hann rétt á níu mánaða fæðingarorlofi sem sé verulega langt frá sjónarhóli vinnuveitanda, það verði að viðurkennast. „Ég hugsa nú kannski að menn hafi ekki verið með akkúrat svona tilvik í huga þegar þeir sömdu lögin,“ segir Andri. Aðspurður hvort Andri missi vinnuna vegna þess að hann sé að fara í fæðingarorlof segir Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, að hann kjósi ekki að tjá sig á grundvelli þeirrar spurningar. Þar sem fram komi í sameiginlegri tilkynningu aðila sé að það hafi tekist samkomulag um að Andri láti af störfum. Aðspurður hvort hann telji að það eigi að endurskoða lög um fæðingarorlof eftir að hafa komist í þessa aðstöðu sem stjórnandi segir Benedikt að hann sé þeirrar skoðunar að lögin hafi fyrst og fremst verið sett til að tryggja réttarstöðu almennra starfsmanna. Staða stjórnenda sem séu á alvörulaunum og séu lykilmenn í sínum fyrirstækjum sé allt öðruvísi og eðlilegt væri að tæki yrði á þeim með ákvæðum í starfssamningum þeirra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×