Viðskipti innlent

Baugur kaupir matvælafyrirtæki

Baugur Group og Talden Holding hafa keypt matvælafyrirtækið Woodward Foodservice af Giant Bidco sem yfirtók Big Food Group fyrr á þessu ári. Kaupin eru gerð í samvinnu við stjórnendur Woodward. Lloyds TSB bankinn fjármagnar kaupin.Woodward Foodservice veltir 180 milljónum punda á ári og stjórnendahópur þess hefur undir forystu Ed Hyslop framkvæmdastjóra keypt umtalsverðan hlut í fyrirtækinu með fulltingi Baugs og Talden. Woodward hefur á boðstólum fjölbreytt úrval matvæla, þar á meðal ferskan fisk og kjöt, frysta, kælda og innpakkaða matvöru fyrir veitingahús, krár, hótel og skóla um allt Stóra-Bretland. Í tilkynningu frá Baugi segir að undanfarin ár hafi félagið vaxið úr því að vera lítið og staðbundið fyrirtæki í að verða þriðja stærsta fyrirtækið í Stóra-Bretlandi á sviði veitingaþjónustu og það sem hraðast vex. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri UK Investments hjá Baugi Group, segir að framundan séu spennandi tímar hjá Woodward  sem sjálfstæðu fyrirtæki. „Við erum sannfærð um að það séu fjölmörg tækifæri sem bjóðast í þessum geira og að Woodward verður í góðri aðstöðu til að eflast í náinni framtíð.“ Velta Woodward Foodservice hefur aukist úr 96 milljónum punda í rúmlega 150 milljónir punda á undanförnum tveimur árum, að því er segir í tilkynningu Baugs, og búist er við því að hún nái 180 milljóna punda markinu á þessu ári. Hjá fyrirtækinu starfa 1.100 manns á 14 dreifingarstöðvum í Stóra-Bretlandi í London, Bracknell, Crawley, Bristol, Birmingham, Kingswinsford, Barnsley, Rhyl, Bodelwyddan, Durham, Glasgow, Bellshill, Aberdeen og Inverness





Fleiri fréttir

Sjá meira


×