Viðskipti innlent

581% aukning í fjárfestingum

Fjárfestingar Íslendinga erlendis jukust um 581% á síðasta ári miðað við 2003. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn birti í dag og greint er frá í Vegvísi Landsbankans. Innstreymi beinnar erlendrar fjárfestingar árið 2004 nam 27,5 milljörðum króna samanborið við rúma 24 milljarða árið áður. Sömuleiðis hefur bein fjármunaeign erlendra aðila aukist á milli ára um tæpa 26 milljarða og stóð í 110 milljörðum í árslok 2004. Íslendingar fjárfestu hins vegar um ríflega 192 milljarða á síðasta ári miðað við 28 milljarða árið áður og jókst því fjárfestingin, eins og áður segir, um 581% á milli ára. Samkvæmt tölum Seðlabankans nam bein fjármunaeign innlendra aðila því 255,1 milljarði.króna í árslok 2004 og jókst um 108% á milli ára. Árið 1998 var bein fjárfesting Íslendinga erlendis sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 4,2% sem talið var lítið samanborið við sumar OECD-þjóðir. Í árslok 2000 hafði fjárfestingin tvöfaldast og í árslok 2004 er bein fjárfesting Íslendinga erlendis talin vera um 30% af vergri landsframleiðslu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×