Viðskipti innlent

Hækkaði vísitöluna um 0,06%

Kerfisbreyting stjórnvalda á sölu á gasolíu á bíla hækkaði ein og sér vísitölu neysluverðs um 0,06 prósent frá fyrra mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Þungaskattur af díselbílum var felldur niður um síðustu mánaðamót en í staðinn tekið upp olíugjald þannig að díselolían hækkaði um tæp 106 prósent, sem hækkar vísitöluna um 0,61 prósent. En þungaskatturinn, sem var felldur niður, var inni í vísitölunni og með niðurfellingu hans lækkaði vísitalan um 0,48 prósent. Mismunurinn, 0,13 prósent, er því til hækkunar vísitölunni og þar af er helmingur vegna breytingarinnar einnar og helmingur vegna hækkunar á olíuverði, eða smásöluverði. Bensínverð, húsnæðisverð og verð á dagvöru hækkaði vísitöluna enn frekar en meðalvextir lækkuðu. Og vegna sumarútsala snarlækkaði verð á fatnaði og skóm og var heildarniðurstaðan sú að vísitalan á milli mánaða hækkaði um 0,12 prósent. Þetta er talsvert minni hækkun en greiningardeildir bankanna höfðu gert ráð fyrir en þær höfðu spáð 0,3 til 0,4 prósenta hækkun á milli mánaða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×