Viðskipti innlent

Stærstur í finnsku símafyrirtæki

Finnska símafyrirtækið Elisa Oyj vill sameinast Saunalahti Group Oyj, sem er félag sem Björgólfur Thor Björgólfsson á stóran hlut í. Hefur félagið gert hluthöfum Saunalahti tilboð um að þeir fái einn hlut í Elisa fyrir 5,6 hluti í sínu félagi. Er það sagt vera 27 prósent hærra en meðalverð á hlutabréfum félagsins síðastliðna tólf mánuði. Er Saunalahti samkvæmt þessu metið á 320 milljónir evra eða um 25 milljarða króna. Björgólfur og annar stór hluthafi, sem ráða yfir helming hlutafjár í Saunalahti, hafa samþykkt tilboðið. Skilyrðið er að Elisa ráði yfir tveimur þriðja atkvæða í sameinuðu félagi. Samkvæmt fréttatilkynningu yrði Elisa metið á rúma tvo milljarða evra eða um 164 milljarða króna. Það yrði næst stærsta símafélag Finnlands og Björgólfur Thor stærsti einstaki hluthafinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×