Viðskipti innlent

Segja ríkið bera ábyrgðina

Stjórnendur Landsbankans telja bankann enga ábyrgð bera á hækkun lífeyrisskuldbindinga Lífeyrissjóðs bankamanna vegna launahækkana eftir einkavæðingu bankans. Eðlilegt sé að krafan um bakábyrgð beinist að ríkinu en ekki Landsbankanum. Í yfirlýsingu bankans segir að samið hafi verið um fullnaðaruppgjör Landsbankans við sjóðinn árið 1997, áður en Landsbankinn var einkavæddur. Þegar gengið hafi verið frá þessu samkomulagi hafi bakábyrgð bankans á skuldbindingum lífeyrissjóðsins fallið niður og Lífeyrissjóður bankamanna eigi ekki lengur lögvarða kröfu á hendur Landsbankanum. "Ástæður þess að eigur Lífeyrissjóðs bankamanna nú nægja ekki að fullu fyrir metnum skuldbindingum sjóðsins eru meðal annars þær að laun hafa hækkað og kaupmáttur aukist meira en forsendur sjóðsins gerðu ráð fyrir," segir í yfirlýsingunni. "Þá hefur sú ánægjulega þróun átt sér stað að lífaldur fólks fer hækkandi og fólk kýs að hætta vinnu fyrr og þar með verða lífeyrisár sjóðfélaga fleiri en áður var reiknað með. Þessar ástæður eru almennar og eiga við fleiri lífeyrissjóði."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×