Viðskipti innlent

50 milljóna starfslokasamningur

Björn Ingi Sveinsson, sem var sagt upp störfum sem sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar eftir hallarbyltingu í sjóðnum, kann að fá 50 milljónir króna í starfslokagreiðslur fyrir fjögurra mánuða starf. Björn Ingi var ráðinn til starfa um síðustu áramót af stjórninni sem þá var við völd. Þegar samið var við Björn Inga um kaup og kjör var fallist á að hann fengi ríflegar bætur ef breytingar yrðu á yfirstjórn sparisjóðsins, þær eru metnar á um 50 milljónir króna samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Nýja stjórnin sagði Birni Inga upp þegar hún komst til valda og réði annan sparisjóðsstjóra. Ekki hefur verið gengið frá starfslokum Björns Inga. Hvorki Páll Pálsson, stjórnarformaður Sparisjóðsins, né Björn Ingi vildu tjá sig um efni starfslokasamningsins meðan málið er ófrágengið. Helgi Vilhjálmsson í Góu er stofnfjáreigandi í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Hann segir það alveg úti í mýri að reka sparisjóðsstjóra eftir svona stuttan tíma, sérstaklega með viðlíka starfslokasamning. "Þessir menn voru ekki að kaupa bankann til að reka hann. Ég fer ekki svona með peninganna sem ég vinn mér fyrir. Svona fara menn bara með peninga sem þeir hafa ekki aflað sér sjálfir," segir Helgi um nýja stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×