Viðskipti innlent

1100 milljóna hagnaður

Skinney-Þinganes hf. skilaði rúmlega 1100 milljóna króna hagnaði eftir skatta árið 2004, 660 milljónum meira en árið áður. Aðalfundur félagsins, sem hefur verið mjög í fréttum í tengslum við sölu ríkisbankanna vegna eignaraðildar forsætisráðherra, samþykkti í fyrradag að greiða út 10 prósenta arð. Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, sagði við það tækifæri að félagið bæri ekki ábyrgð á misritunum sem hefðu þyrlað upp moldviðri í sambandi við bankasöluna. Réttar upplýsingar hefðu alltaf legið fyrir hjá félaginu en stjórnmálamenn og fréttamenn hafi hver apað vitleysuna eftir öðrum og ekki leitað svara hjá félaginu. Hagnaður Skinneyjar-Þinganess af hinni umdeildu eign í Hesteyri hafi verið 74 milljónir króna eftir skatta árið 2002.  Það skal tekið fram vegna ræðu stjórnarformannsins að fréttastofan leitaði upplýsinga hjá Skinney-Þinganesi en fékk engin svör.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×