R-hópurinn 12. júní 2005 00:01 Þá er ríkisblaðið sem Guðrún Helgadóttir kallaði eftir á sínum tíma loksins komið fram. Það fylgdi Mogganum á fimmtudaginn og kallast Málið. Það er viðeigandi nafn á ríkisblaði. Ekki eins yfirþyrmandi og Sannleikurinn -- eins og ríkisblöð í Sovétinu voru gjarnan kölluð. Málið er gefið út af ríkisfyrirtækinu Landssímanum, sem nýtir síðustu daga sína í ríkisranni til að ríkisvæða fjölmiðla -- þótt flestum, öðrum en Guðrúnu Helgasdóttur, finnst sjálfsagt nóg um fyrirferð ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Fyrst keypti Landssíminn Skjá einn og enska boltann -- ríkisvæddi Survivor, Sylvíu Nótt, Chelsea og Popppunkt. Í vor lét Landssíminn síðan Skjá einn kaupa ungmennaútvarpsstöðvarnar Kiss fm og Xfm, í félagi við útgáfufélag Blaðsins. Sjálfsagt hefur enginn vitað fyrir þörf ríkisvaldsins til að eignast Kiss fm. Tilvist ríkisútvarps er oftast réttlætt með vandaðri dagskrá sem ólíklegt er talið að einkaaðilar muni halda úti. Þótt allrar sanngirni sé gætt þá er ekki hægt að halda því fram að dagskrá Kiss fm eða Xfm -- né Skjás eins eða enska boltans -- sé þessleg að henni verði ekki haldið úti nema með ríkisvaldið að bakhjarli. Þvert á móti er dagskrá þessara miðla hrein andstæða við hugmyndir fólks um góða dagskrá Ríkisútvarpsins. Og nú hefur Landssíminn bætt ríkisblaði við og það verður að segjast að efni þess er í svipuðum anda og Kiss fm og aðra parta hins nýja ríkisútvarps Landssímans. Hvað gengur Landssímanum til? Og hvers vegna heyrum við ekki gagnrýnisöldu frá ungum sjálfstæðismönnum, varðmönnum einkaframtaks og andstæðingum ríkisvæðingar? Hvar er nú Guðlaugur Þór, sem þreytist aldrei á að skamma Alfreð Þorsteinsson fyrir að senda opinbert fyrirtæki í vafasöm viðskiptaævintýr? Kannski hafa Guðlaugur Þór og ungir sjálfstæðismenn ekkert á móti hirðislausu fé í samkeppnisrekstri eða austri á opinberu fé í gæluverkefni stjórnenda -- kannski snýr andúðin að Alfreð Þorsteinssyni persónulega. Líklega liggur ástæðan fyrir þögn ungu varðliðanna í því sem allir telja sig vita. Stjórnendur Landssímans færu ekki að ríkisvæða fjölmiðla á Íslandi nema með samþykki handhafa 95 prósenta hlutafjár í félaginu -- ríkisstjórnar Íslands. Allra síst á sama tíma og ríkisstjórnin er að selja kompaníið. Þótt ríkisvæðing fjölmiðlanna samhliða einkavæðingu Landssímans hljómi sem skondin endaleysa hlýtur þetta að vera stefna ríkisstjórnarinnar. Stefna í hverju? kynni einhver að spyrja. Og hvert er stefnt? Nýjasta útspil ríkisvaldsins á fjölmiðlamarkaði var að heimila Landssímanum formlega að skylda alla þá sem vilja horfa á enska fótboltann næsta vetur til að kaupa ADSL-þjónustu af Landssímanum. Þetta er álíka og ef ríkisvaldið heimilaði Heklu að neyða alla kaupendur að Volkswagen til að kaupa aðeins bensín hjá Esso. Þeaai sérstaka og formlega heimild til að skekkja samkeppnisumhverfið kom frá Samkeppnisstofnun -- eins smellið og það nú hljómar. Því miður er þetta ekki einsdæmi þess að ríkisfyrirtæki fái ívilnanir hjá ríkisstofnunum eða stjórnvöldum. Fyrir okkur, sem lifum og störfum utan pilsfalds ríkiskerfisins, lítur þetta út eins og ríkiskallarnir standi saman -- að þeir myndi eins konar klíku í viðskiptalífinu: R-hópinn. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þannig tekið sér ár og aldir í að úthluta leyfi til útsendinga á stafrænum sjónvarpsmerkjum um bylgjur loftsins -- þótt yfirdrifið nóg pláss sé í loftinu til að uppfylla óskir allra sem vilja nota þær. Á meðan enginn má selja sjónvarp um loftið keppist Landssíminn við að fá fólk til að kaupa sjónvarp um koparvíra gegn skuldbindingu um kaup á símaþjónustu. Og stjórnvöld eru sífellt að boða harðar takmarkanir á einkarekna fjölmiðlun á sama tíma og þau vilja skapa sem allra mest svigrúm fyrir rekstur Ríkisútvarpsins. Ég er ekki viss um að þetta ástand hafi skapast vegna einbeitts vilja stjórnarherranna. Þvert á móti. Þetta skrítna ástand -- uppgangur R-hópsins -- hefur líklega orðið til vegna þess að stjórnarherrana skortir dug til að halda ríkisgeiranum við hlutverk sitt -- að þjóna almenningi. Innan ríkisstofnana og -fyrirtækja hefur óhindrað vaxið ótaminn vilji til valds. Þess vegna ríkisvæðist samfélag okkar miklu hraðar en tekst að einkavæða það. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Gunnar Smári Egilsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Þá er ríkisblaðið sem Guðrún Helgadóttir kallaði eftir á sínum tíma loksins komið fram. Það fylgdi Mogganum á fimmtudaginn og kallast Málið. Það er viðeigandi nafn á ríkisblaði. Ekki eins yfirþyrmandi og Sannleikurinn -- eins og ríkisblöð í Sovétinu voru gjarnan kölluð. Málið er gefið út af ríkisfyrirtækinu Landssímanum, sem nýtir síðustu daga sína í ríkisranni til að ríkisvæða fjölmiðla -- þótt flestum, öðrum en Guðrúnu Helgasdóttur, finnst sjálfsagt nóg um fyrirferð ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Fyrst keypti Landssíminn Skjá einn og enska boltann -- ríkisvæddi Survivor, Sylvíu Nótt, Chelsea og Popppunkt. Í vor lét Landssíminn síðan Skjá einn kaupa ungmennaútvarpsstöðvarnar Kiss fm og Xfm, í félagi við útgáfufélag Blaðsins. Sjálfsagt hefur enginn vitað fyrir þörf ríkisvaldsins til að eignast Kiss fm. Tilvist ríkisútvarps er oftast réttlætt með vandaðri dagskrá sem ólíklegt er talið að einkaaðilar muni halda úti. Þótt allrar sanngirni sé gætt þá er ekki hægt að halda því fram að dagskrá Kiss fm eða Xfm -- né Skjás eins eða enska boltans -- sé þessleg að henni verði ekki haldið úti nema með ríkisvaldið að bakhjarli. Þvert á móti er dagskrá þessara miðla hrein andstæða við hugmyndir fólks um góða dagskrá Ríkisútvarpsins. Og nú hefur Landssíminn bætt ríkisblaði við og það verður að segjast að efni þess er í svipuðum anda og Kiss fm og aðra parta hins nýja ríkisútvarps Landssímans. Hvað gengur Landssímanum til? Og hvers vegna heyrum við ekki gagnrýnisöldu frá ungum sjálfstæðismönnum, varðmönnum einkaframtaks og andstæðingum ríkisvæðingar? Hvar er nú Guðlaugur Þór, sem þreytist aldrei á að skamma Alfreð Þorsteinsson fyrir að senda opinbert fyrirtæki í vafasöm viðskiptaævintýr? Kannski hafa Guðlaugur Þór og ungir sjálfstæðismenn ekkert á móti hirðislausu fé í samkeppnisrekstri eða austri á opinberu fé í gæluverkefni stjórnenda -- kannski snýr andúðin að Alfreð Þorsteinssyni persónulega. Líklega liggur ástæðan fyrir þögn ungu varðliðanna í því sem allir telja sig vita. Stjórnendur Landssímans færu ekki að ríkisvæða fjölmiðla á Íslandi nema með samþykki handhafa 95 prósenta hlutafjár í félaginu -- ríkisstjórnar Íslands. Allra síst á sama tíma og ríkisstjórnin er að selja kompaníið. Þótt ríkisvæðing fjölmiðlanna samhliða einkavæðingu Landssímans hljómi sem skondin endaleysa hlýtur þetta að vera stefna ríkisstjórnarinnar. Stefna í hverju? kynni einhver að spyrja. Og hvert er stefnt? Nýjasta útspil ríkisvaldsins á fjölmiðlamarkaði var að heimila Landssímanum formlega að skylda alla þá sem vilja horfa á enska fótboltann næsta vetur til að kaupa ADSL-þjónustu af Landssímanum. Þetta er álíka og ef ríkisvaldið heimilaði Heklu að neyða alla kaupendur að Volkswagen til að kaupa aðeins bensín hjá Esso. Þeaai sérstaka og formlega heimild til að skekkja samkeppnisumhverfið kom frá Samkeppnisstofnun -- eins smellið og það nú hljómar. Því miður er þetta ekki einsdæmi þess að ríkisfyrirtæki fái ívilnanir hjá ríkisstofnunum eða stjórnvöldum. Fyrir okkur, sem lifum og störfum utan pilsfalds ríkiskerfisins, lítur þetta út eins og ríkiskallarnir standi saman -- að þeir myndi eins konar klíku í viðskiptalífinu: R-hópinn. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þannig tekið sér ár og aldir í að úthluta leyfi til útsendinga á stafrænum sjónvarpsmerkjum um bylgjur loftsins -- þótt yfirdrifið nóg pláss sé í loftinu til að uppfylla óskir allra sem vilja nota þær. Á meðan enginn má selja sjónvarp um loftið keppist Landssíminn við að fá fólk til að kaupa sjónvarp um koparvíra gegn skuldbindingu um kaup á símaþjónustu. Og stjórnvöld eru sífellt að boða harðar takmarkanir á einkarekna fjölmiðlun á sama tíma og þau vilja skapa sem allra mest svigrúm fyrir rekstur Ríkisútvarpsins. Ég er ekki viss um að þetta ástand hafi skapast vegna einbeitts vilja stjórnarherranna. Þvert á móti. Þetta skrítna ástand -- uppgangur R-hópsins -- hefur líklega orðið til vegna þess að stjórnarherrana skortir dug til að halda ríkisgeiranum við hlutverk sitt -- að þjóna almenningi. Innan ríkisstofnana og -fyrirtækja hefur óhindrað vaxið ótaminn vilji til valds. Þess vegna ríkisvæðist samfélag okkar miklu hraðar en tekst að einkavæða það.