Sport

Birgir í basli með Bermúda-grasið

Birgir Leifur Hafþórsson er í 23.-31. sæti á móti í Marokkó þegar aðeins á eftir að leika einn hring en þetta mót er liður í áskorendamótaröð Evrópu. Birgir Leifur lék á 68 höggum í gær eða þrem undir pari en hann er sex undir pari samtals. Það hefur verið fínn stígandi í leik Birgis en hann lék fyrsta hringinn á 73 höggum, annan á 66 höggum og svo fór hann á 68 höggum í gær. „Ég hef verið að spila mjög vel undanfarið og því átti ég von á því að vera með efstu mönnum á þessu móti," sagði Birgir Leifur í samtali við Fréttablaðið í gær en veðrið í Marokkó er þægilegt þessa dagana – 25 stiga hiti og smá gola. „Ég er reyndar ekkert nógu sáttur við minn leik á þessu móti. Ég hef verið í vandræðum með púttin enda er Bermúda-gras á flötunum og ég á svolítið erfitt með að reikna þau út. Annars er ég í fínu formi og þetta hefði getað verið mikið mun betra." Birgir Leifur segist taka það jákvæða með sér á næstu mót þar sem hann er bjartsýnn á gott gengi.„Ég á helling inni á næstu mótum. Ég hef verið að æfa vel og spila vel, betur en ég hef í raun gert á þessu móti. Þetta er samt allt á réttri leið og ég get ekki verið annað en bjartsýnn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×