Viðskipti innlent

Meiri halli á vöruskiptum

Fyrstu fjóra mánuði ársins var mun meira flutt inn til landsins en frá því og var vöruskiptajöfnuðurinn óhagstæður um sextán milljarða króna, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Á sama tímabili í fyrra var hallinn á vöruskiptum hins vegar 3,4 milljarðar. Í prósentum jókst hallinn tæplega fjórfalt. Vöruskiptin í apríl voru óhagstæð um 4,4 milljarða króna, sem er mikil breyting frá apríl árið 2004 þegar hallinn var 2,9 milljarðar á föstu gengi. Verðmæti vöruútflutnings jókst um 1,2 milljarða króna eða tvö prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Sjávarafurðir eru um 60 prósent alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um hálft prósentustig. Iðnaðarvörur voru um 35 prósent útflutningsins. Miklu meiri vöxtur var í verðmæti vöruinnflutnings, sem var um rúmlega fjórðungi meiri en í fyrra, um tæpa fjórtán milljarða króna. Aukningin varð mest í innflutningi fólksbíla, fjárfestingarvöru og hrá- og rekstrarvöru.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×