Viðskipti innlent

Síminn: Hátt í 4000 hafa skráð sig

Á fjórða þúsund einstaklingar hafa skráð sig fyrir meira en tveimur milljörðum króna til kaupa á hlutabréfum í Símanum hjá tveimur hópum. Forsvarsmaður söfnunarinnar á bókhaldssíðunni logiledger segir vel koma til greina að sameinast hópi Agnesar Bragadóttur. Logiledger er bókhalds- og samskiptakerfi á Netinu. Ingvar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að á annað þúsund manns hafi þegar skráð sig fyrir meira en milljarði króna. Hann segir að þó að mikill áhugi sé meðal almennings, þá sé nú leitað að kjölfestufjárfesti sem geti komið inn með mikið fé og leitt hópinn. Þannig sé hinum litlu fjárfestum best borgið. Agnes Bragadóttir, fréttastjóri á Morgunblaðinu sem varpaði þessar hugmynd fyrst fram, hefur fengið frí frá störfum til að sinna svipuðu verkefni með Orra Vigfússyni og Jafet Ólafssyni. Jafet segir viðbrögðin hafa verið gífurleg og þeim hafi þegar borist tilboð frá á annað þúsund manns sem flestir vilja kaupa fyrir hálfa til fimm milljónir króna. Formlegur fundur verður haldinn hjá þeim í dag og framhaldið ákveðið. En ef tveir hópar eru komnir af stað sem vilja ná til almennings, er möguleiki að sameina þá þegar þar að kemur? Ingvar segir það að sjálfsögðu koma til greina. „Þetta verður unnið fyrst og fremst með hagsmuni heildarinnar, og þeirra sem hafa skráð sig hjá okkur, að leiðarljósi,“ segir Ingvar. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×