Erlent

Óvíst hvort Wolfowitz verði ráðinn

Tilnefning Pauls Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í embætti bankastjóra Alþjóðabankans, hefur vakið hörð viðbrögð. Óvíst er hvort tilnefningin fæst staðfest. Víða í Evrópu undrast menn val Bush Bandaríkjaforseta á Wolfowitz og benda einnig á tilnefningu Johns Boltons í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í síðustu viku. Fyrir vikið séu tveir helstu talsmenn einstrengingslegrar stefnu stjórnar Bush, þess efnis að Bandaríkin eigi að fara sínu fram, orðnir forsvarsmenn hjá alþjóðastofnunum sem snúast um samvinnu og málamiðlanir. Þær raddir hafa einnig heyrst að Wolfowitz muni beita Alþjóðabankanum þannig að hann þjóni þeim hagsmunum sem Wolfowitz varði í varnarmálaráðuneytinu, þ.e. öryggishagsmunum Bandaríkjanna og því að dreifa lýðræði um víða veröld í stað þróunaraðstoðar. Talsmenn hjálparsamtaka gera athugasemdir við reynsluleysi og bakgrunn Wolfowitz og segja hann ekki rétta manninn til að ná fram sátt og samlyndi í samstarfi þjóðanna í Alþjóðabankanum. Tveir af þekktustu hagfræðingum heims og sérfræðingar í þróunarmálum, Jeffrey Sachs og Joseph Stiglitz, eru mótfallnir Wolfowitz. Þýskir fjölmiðlar segja að innan hóps evrópskra stjórnenda bankans sé talað um andstöðu og að koma verði í veg fyrir að tilnefning Bush verði staðfest. Fregnir bárust raunar af því að áður en Bush tilnefndi Wolfowitz hafi nafn hans verið nefnt óformlega við þungavigtarmenn innan bankans og ráðningu hans hafnað. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, var þó hæstánægður í gærkvöldi og sagði að Wolfowitz væri afbragðsmaður með góða reynslu á alþjóðavettvangi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×