Sport

Bristol á leið "heim"?

Ágætis líkur eru á að Reshea Bristol, sem lék með meistaraflokki kvenna í Keflavík fyrri lungan úr tímabilinu í 1. deild kvenna, muni snúa aftur til Keflavíkur. Bristol þurfti frá að hverfa eftir að fjölskylda hennar lenti í bílslysi og var hún kvödd heim af sínum nánustu eftir það. Í hennar stað kom LaToya Rose en hún bjó ekki yfir þeim eiginleikum sem Keflvíkingar leituðust eftir og var látin fara eftir tvo leiki. Þessar þreifingar hafa reynst Keflavíkurstúlkum dýrkeyptar en þær hafa tapað þremur síðustu leikjum, þar af undanúrslitum bikarkeppninnar. Liðið tapaði hins vegar ekki leik með Bristol innanborðs enda skilaði hún liði sínu 21,5 stigum, 8,4 fráköstum, 7,75 stoðsendingum og 6,75 stolnum boltum að meðaltali í leik. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Fréttablaðið að málið væri á lokastigi. "Hún vill koma aftur og er að kanna hvort aðstæður leyfi það," sagði Sverrir. "Fari svo að hún komi ekki munum við leita okkur að nýjum erlendum leikmanni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×