Innlent

Rannsókn á líðan lækna

Hleypt hefur verið af stokkunum rannsókn á heilsu, lífsstíl og starfsskilyrðum lækna á Íslandi. Allir læknar á Íslandi með gilt lækningaleyfi þann 30. júní á þessu ári og búsettir eru hér á landi, alls 1.185 læknar, hafa fengið sent boð um þátttöku. Rannsókninni er stýrt af fagfólki, meðal annars á sviði félagsvísinda og vinnuverndar. Hún tekur mið af fyrri rannsóknum í samráði við hóp íslenskra lækna frá mismunandi sérgreinum og vinnustöðum. Hún er hluti af erlendu samstarfsverkefni í Noregi, Svíþjóð og á Ítalíu. Íslenskir og norskir læknar ríða nú á vaðið að leggja fyrir spurningalista en Svíar og Ítalir munu fylgja fast á eftir. Framkvæmd íslenska verkefnisins er afurð samstarfs Landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahúss, Félags kvenna í læknastétt á Íslandi, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Rannsóknastofu í vinnuvernd við Háskóla Íslands. Gefst með þessari rannsókn mikilvægt tækifæri til að afla þekkingar á stöðu og starfsumhverfi íslensku læknastéttarinnar í samanburði við erlenda starfsfélaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×