Láta taka af sér bæði brjóstin

Árlega láta þrjátíu til fjörutíu danskar konur fjarlægja af sér bæði brjóstin með skurðaðgerð til að fyrirbyggja að þær fái brjóstakrabbamein, samkvæmt grein í danska blaðinu Politiken. Þetta er gert eingöngu í þeim tilfellum þar sem erfðir auka líkurnar á krabbameini. Flestar konurnar velja að láta græða á sig gervibrjóst í staðinn. Fjögur þúsund danskar konur greinast með brjóstakrabbamein, þar af er hægt að rekja meinið til erfða í fimm til tíu prósentum tilfella.