Innlent

Grunur um manndráp

Tæplega þrítugur maður er í haldi lögreglunnar í Kópavogi, grunaður um að hafa ráðið tuttugu og fimm ára eiginkonu sinni bana á heimili þeirra í fjölbýlishúsi í Hamraborg í nótt. Það var klukkan rúmlega þrjú í nótt sem lögreglu barst vitneskja um að ekki væri allt með felldu á heimili þeirra. Það var með þeim hætti að maðurinn hringdi í vinafólk og lét vita en það hringdi í lögregluna. Þegar lögregla kom að var konan látin og voru áverkar á líkinu sem bentu til þess að átök hefðu átt sér stað og leitt til dauða hennar. Eiginmaðurinn var handtekinn á vettvangi og hefur hann viðurkennt að hafa átt þátt í láti konunnar. Rannsókn málsins er á frumstigi og því óljóst um málsatvik en yfirheyrslur hafa staðið í allan morgun. Þá hafa tæknimenn verið á vettvangi. Næstu nágrannar í fjölbýlishúsinu segjast ekki hafa orðið varir við neitt óvenjulegt í nótt sem bendi til langvarandi átaka. Hin látna lætur eftir sig tvö ung börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×