Lífið

Ekki láta rokið ræna þig svefni

Þeir sem búa í gömlum húsum eða á vindsælum stöðum kannast við þegar hvessir og gnauðar og hriktir í hurðum og gluggum. Sumum finnst þetta notaleg hljóð og tala um að húsið hafi "sál" en ýlfrið í einmana vindinum rænir aðra svefni og ró. Ráð við þessum hljóðum eru ekki einföld því ástæðurnar fyrir hávaðanum geta verið ýmsar. Loftstreymið inni í húsinu getur átt einhverja sök og svo ræður aldur hússins og frumfrágangur auðvitað miklu. En ekki er ráð að deyja ráðalaus. Í byggingavöruverslunum er hægt að fá þéttilista sem festir eru utan með hurðum og gluggum. Þéttilistarnir eru þrennskonar, hægt er að fá límlista sem er þó frekar bráðabirgðalausn en hefur þann kost að hann er ekki varanleg breyting á húsnæðinu. Heftilisti endist lengur, hann er heftur inn í karminn og svo er hægt að kalla til fagmenn til að fá lausn í málið í eitt skipti fyrir öll en þeir fræsa upp úr hurðakarminum og festa varanlegan lista inn í hann. Glugga er auðvitað nauðsyn að glerja upp á nýtt ef ástandið er orðið alvarlegt en hægt er að bjarga sér fyrir horn með títtnefndum þéttilistum. Glugga sem ekki eru opnanlegir er hægt að þétta með því að sprauta kítti meðfram þeim. Það er því engin ástæða til að láta vindinn halda fyrir sér vöku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×