Við þurfum að treysta dómurum 27. september 2004 00:01 Að setja Jón Steinar í Hæstarétt er eins og að gera Eirík Jónsson að ríkissáttasemjara upp úr kennaraverkfalli. Það er eins og að taka aðaltuddann í vörn annars liðsins í fótbolta og gera hann að dómara í miðjum leik. Þetta passar ekki. Sú hugmynd að Jón Steinar geti verið hlutlaus dómari hreinlega passar ekki. Allt þetta undarlega brölt verður einna helst skilið sem framhald af baráttu Davíðs Oddssonar við Hæstarétt út af síendurteknum lögbrotum ríkisstjórnar hans sem rétturinn þurfti að úrskurða um, einkum gagnvart öryrkjum. Oft voru þessi lögbrot ríkisstjórnarinnar einmitt að undirlagi Jóns Steinars. Sem nú virðist hafa ákveðið að þetta gangi ekki lengur, hann verði sjálfur að fara þarna inn og taka til hendinni. Að minnsta kosti er augljóst að valdamikil öfl telja að mikið sé í húfi að honum hlotnist embættið. Morgunblaðið gerist skyndilega sérstakt málgagn þessa tiltekna lögmanns og skrifar tvo leiðara um hvílík ósvinna það sé hjá Hæstarétti að sinna lögboðnu hlutverki sínu um að gefa umsækjendum umsagnir en einkum þó að dirfast að setja Jón Steinar ekki ofar á blað en raunin er. Þar tókst að eyðileggja enn frekar gamla viðleitni til að gera Moggann að þjóðarblaði og er nú lítið að verða eftir af því. Hópur lögmanna hefur líka farið þá einstæðu leið að safna undirskriftum til stuðnings Jóni Steinari – og mun það vera hending ein að bréfið það arna var skrifað á tölvuna hans. Þessir lögmenn virðast ekki hafa hugsað út í þá stöðu sem það setur þá í gagnvart honum í hugsanlegu dómarasæti í málum sem þeir sækja. Að ekki sé talað um þá sem ekki skrifa undir. Þetta uppátæki virkar óneitanlega á utanaðkomandi eins og verið sé að tryggja sér sæti nálægt hlýju valdsins. Jón Steinar virkar reyndar á mann sem býsna glúrinn lögmaður - þó að ég hafi náttúrlega ekki hundsvit á þessu fagi. En þótt klókur kunni að vera þá er hann enginn Njáll – og þaðan af síður nokkur Salómon. Hann er harðdrægur fyrir hönd umbjóðenda sinna, fundvís á veilur hjá andstæðingum, ástríðufullur og iðulega ófyrirleitinn í málflutningi, umfram allt afar einsýnn og hefur ekki til þessa orðið uppvís að því að sjá tvær hliðar á sama máli. Hann þolir ekki að tapa og er einhver umsvifamesti deiluaðili seinni tíma hér á landi. Af blaðaskrifum hans að dæma virðist hann eins og margir Íslendingar hafa sérkennilega unun af þrasi og hefur átt hlut að flestum stórum – og jafnvel smáum - ágreiningsefnum sem upp hafa komið í þjóðlífinu síðustu árin. Hann er raunar svo þrasgjarn og gefinn fyrir að eiga síðasta orðið að ég minnist óvæginnar ritdeilu sem hann átti eitt sinn í sem formaður yfirkjörstjórnar við fatlaðan mann sem hafði kvartað yfir aðgengi hjólastóla í kjördeild sinni. Hann vill með öllum ráðum fá sitt fram, sem er ekki ákjósanlegur eiginleiki hjá dómara þótt nauðsynlegur sé góðum verjanda – hann hefur ekki áru þess manns sem sker úr um mál, sættir, leitar sannleikans og hinnar réttlátu niðurstöðu sem öllum sé fyrir bestu og kveður upp viturlega úrskurði. Jón Steinar hefur ekki áru manns sem vegur mál og metur. Hann er alltaf viss. Því verður mér svo tíðrætt um áru Jóns Steinars í þjóðlífinu að hún skiptir hér meginmáli. Hana hefur hann sjálfur búið til með opinberri framgöngu sinni. Og hún er eldrauð af langvinnu þjarki um stórt og smátt. Vel kann að vera að hann sé einhverjum þeim kostum búinn sem nauðsynlegir eru dómara – hvað veit maður? – hann er kannski annálaður mannasættir í Lunch united en það er ekki sú hlið sem hann snýr að almenningi. Allt snýst þetta um traust. Okkur borgurum þessa lands er það höfuðnauðsyn að geta treyst Hæstarétti og dómum hans. Þótt manni kunni stundum að sýnast að lagatæknilegir annmarkar á málatilbúnaði verði til þess að sekir menn sleppi með sýknu og manni gremjist það þá er það enn ríkari ástæða fyrir því að dóminn skipi fólk sem maður grunar ekki um græsku. Með öðrum orðum: þótt við getum ekki alltaf treyst því að niðurstöður dóma séu réttlátar samkvæmt almennri réttlætiskennd þá verðum við að geta treyst því að dómararnir leiti hinnar réttu niðurstöðu. En kannski skiptir þetta engu máli þegar upp verður staðið: vandséð er í hvaða málum Jón Steinar Gunnlaugsson getur dæmt. Hann hefur í gegnum árin staðið í svo mörgum rifrildum að sem hæstaréttardómari verður hann sennilega alltaf vanhæfur í öllum málum, þarf ævinlega að víkja sæti, fær aldrei að gera neitt. Verður svo forseti Hæstaréttar og hefur þann starfa helstan með höndum að fara með jöfnu millibili út á Keflavíkurflugvöll til þess að taka á móti Ólafi Ragnari Grímssyni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun
Að setja Jón Steinar í Hæstarétt er eins og að gera Eirík Jónsson að ríkissáttasemjara upp úr kennaraverkfalli. Það er eins og að taka aðaltuddann í vörn annars liðsins í fótbolta og gera hann að dómara í miðjum leik. Þetta passar ekki. Sú hugmynd að Jón Steinar geti verið hlutlaus dómari hreinlega passar ekki. Allt þetta undarlega brölt verður einna helst skilið sem framhald af baráttu Davíðs Oddssonar við Hæstarétt út af síendurteknum lögbrotum ríkisstjórnar hans sem rétturinn þurfti að úrskurða um, einkum gagnvart öryrkjum. Oft voru þessi lögbrot ríkisstjórnarinnar einmitt að undirlagi Jóns Steinars. Sem nú virðist hafa ákveðið að þetta gangi ekki lengur, hann verði sjálfur að fara þarna inn og taka til hendinni. Að minnsta kosti er augljóst að valdamikil öfl telja að mikið sé í húfi að honum hlotnist embættið. Morgunblaðið gerist skyndilega sérstakt málgagn þessa tiltekna lögmanns og skrifar tvo leiðara um hvílík ósvinna það sé hjá Hæstarétti að sinna lögboðnu hlutverki sínu um að gefa umsækjendum umsagnir en einkum þó að dirfast að setja Jón Steinar ekki ofar á blað en raunin er. Þar tókst að eyðileggja enn frekar gamla viðleitni til að gera Moggann að þjóðarblaði og er nú lítið að verða eftir af því. Hópur lögmanna hefur líka farið þá einstæðu leið að safna undirskriftum til stuðnings Jóni Steinari – og mun það vera hending ein að bréfið það arna var skrifað á tölvuna hans. Þessir lögmenn virðast ekki hafa hugsað út í þá stöðu sem það setur þá í gagnvart honum í hugsanlegu dómarasæti í málum sem þeir sækja. Að ekki sé talað um þá sem ekki skrifa undir. Þetta uppátæki virkar óneitanlega á utanaðkomandi eins og verið sé að tryggja sér sæti nálægt hlýju valdsins. Jón Steinar virkar reyndar á mann sem býsna glúrinn lögmaður - þó að ég hafi náttúrlega ekki hundsvit á þessu fagi. En þótt klókur kunni að vera þá er hann enginn Njáll – og þaðan af síður nokkur Salómon. Hann er harðdrægur fyrir hönd umbjóðenda sinna, fundvís á veilur hjá andstæðingum, ástríðufullur og iðulega ófyrirleitinn í málflutningi, umfram allt afar einsýnn og hefur ekki til þessa orðið uppvís að því að sjá tvær hliðar á sama máli. Hann þolir ekki að tapa og er einhver umsvifamesti deiluaðili seinni tíma hér á landi. Af blaðaskrifum hans að dæma virðist hann eins og margir Íslendingar hafa sérkennilega unun af þrasi og hefur átt hlut að flestum stórum – og jafnvel smáum - ágreiningsefnum sem upp hafa komið í þjóðlífinu síðustu árin. Hann er raunar svo þrasgjarn og gefinn fyrir að eiga síðasta orðið að ég minnist óvæginnar ritdeilu sem hann átti eitt sinn í sem formaður yfirkjörstjórnar við fatlaðan mann sem hafði kvartað yfir aðgengi hjólastóla í kjördeild sinni. Hann vill með öllum ráðum fá sitt fram, sem er ekki ákjósanlegur eiginleiki hjá dómara þótt nauðsynlegur sé góðum verjanda – hann hefur ekki áru þess manns sem sker úr um mál, sættir, leitar sannleikans og hinnar réttlátu niðurstöðu sem öllum sé fyrir bestu og kveður upp viturlega úrskurði. Jón Steinar hefur ekki áru manns sem vegur mál og metur. Hann er alltaf viss. Því verður mér svo tíðrætt um áru Jóns Steinars í þjóðlífinu að hún skiptir hér meginmáli. Hana hefur hann sjálfur búið til með opinberri framgöngu sinni. Og hún er eldrauð af langvinnu þjarki um stórt og smátt. Vel kann að vera að hann sé einhverjum þeim kostum búinn sem nauðsynlegir eru dómara – hvað veit maður? – hann er kannski annálaður mannasættir í Lunch united en það er ekki sú hlið sem hann snýr að almenningi. Allt snýst þetta um traust. Okkur borgurum þessa lands er það höfuðnauðsyn að geta treyst Hæstarétti og dómum hans. Þótt manni kunni stundum að sýnast að lagatæknilegir annmarkar á málatilbúnaði verði til þess að sekir menn sleppi með sýknu og manni gremjist það þá er það enn ríkari ástæða fyrir því að dóminn skipi fólk sem maður grunar ekki um græsku. Með öðrum orðum: þótt við getum ekki alltaf treyst því að niðurstöður dóma séu réttlátar samkvæmt almennri réttlætiskennd þá verðum við að geta treyst því að dómararnir leiti hinnar réttu niðurstöðu. En kannski skiptir þetta engu máli þegar upp verður staðið: vandséð er í hvaða málum Jón Steinar Gunnlaugsson getur dæmt. Hann hefur í gegnum árin staðið í svo mörgum rifrildum að sem hæstaréttardómari verður hann sennilega alltaf vanhæfur í öllum málum, þarf ævinlega að víkja sæti, fær aldrei að gera neitt. Verður svo forseti Hæstaréttar og hefur þann starfa helstan með höndum að fara með jöfnu millibili út á Keflavíkurflugvöll til þess að taka á móti Ólafi Ragnari Grímssyni.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun