Innlent

Andsnúinn kaupunum

"Síminn, sem opinbert fyrirtæki, hefði ekki átt að fjárfesta í Skjá einum," segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um kaup Landssímans á Fjörgný, sem á 26% hlut í Skjá einum. "Með fjárfestingunni er ríkið að taka til sín stærri hlut á þessum markaði. Það hefði verið miklu heppilegra að nýir eigendur á Símanum, eftir einkavæðingu hans, hefðu tekið ákvörðun um fjárfestingu sem þessa," segir Sigurður Kári. Spurður hvort Síminn, sem fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu, hefði ekki tekið óþarfa áhættu með kaupum á fjórðungshlut í ljósvakamiðli þegar fyrir dyrum er nýtt fjölmiðlafrumvarp með hugsanlegum takmörkunum á slíkri eignaraðild, segist Sigurður Kári ekki geta tjáð sig um það. "Ég veit ekki hvað verður um ný fjölmiðlalög og hvernig þau verða," segir Sigurður Kári. Í síðustu útgáfu fjölmiðlalaganna var gert ráð fyrir að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu mætti ekki eiga meira en tíu prósent í ljósvakamiðli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×