Innlent

Skilorð fyrir misheppnað bankarán

23 ára gamall maður fékk í gær skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur upp á fimm mánuði fyrir tilraun til að ræna útibú Landsbankans við Gullinbrú í Reykjavík föstudaginn 5. desember sl. Refsing fellur niður að 3 árum liðnum haldi maðurinn almennt skilorð, en honum var jafnframt gert að greiða allan sakarkostnað. Maðurinn ruddist inn í bankann með nælonsokk fyrir andliti og ógnaði gjaldkerum með stórum hnífi, en hafði ekki erindi sem erfiði og lagði á flótta tómhentur. Hann játaði sök bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi. Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi þrívegis áður gengist undir sáttir fyrir umferðarlagabrot og brot á fíkniefnalögum. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar hinn 16. mars sl. fyrir fíkniefnabrot og skjalafals. Litið var til sakaferils mannsins við ákvörðun refsingar, auk þess að hann var samvinnuþýður við rannsókn málsins og játaði brot sitt. Í málflutningi kom fram að þrátt fyrir ungan aldur hafi maðurinn lengi átt við fíkniefnavanda að stríða, en hefur að eigin sögn tekið sig verulega á og mun hafa gengist undir meðferð á Vogi og í Byrginu, þar sem hann dvelst næsta árið og stundar vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×