
Innlent
Ástþór afhendir Ólafi áskorun

Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi, hitti Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í húsi Ríkisútvarpsins eftir hádegi og afhenti honum bréf með áskorun um að mæta sér í kappræðum. Bréf Ástþórs er stílað á Hans hátign herra forseta Ólaf Ragnar Grímsson. Ólafur Ragnar veitti bréfinu viðtöku og hvarf eftir stutt en kurteisleg orðaskipti úr útvarpshúsinu þar sem hann hafði verið í viðtali um framboð sitt til forseta. Eftir honum komu hvor í sínu lagi, Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon, í viðtal. Aukinn þungi hefur verið að færast í kosningabaráttu Ólafs Ragnars Grímssonar og hefur hann verið í stórum viðtölum í útvarpi og dagblöðum í dag. Kosningarnar fara fram eftir viku. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefur verið dræmari nú en fyrir kosningarnar síðast, einkum í Reykjavík.