Stjarnan komst aftur á beinu brautina í Pepsi-deild kvenna með 3-1 sigri á ÍA eftir að hafa lent 1-0 undir.
Megan Dunningan kom ÍA yfir á 21. mínútu og þannig var staðan í hálfleik, en Harpa Þorsteinsdóttir jafnaði fyrir Stjörnuna á 47. mínútu.
Katrín Ásbjörnsdóttir kom svo Stjörnunni yfir á 63. mínútu og markamaskínan Harpa Þorsteinsdóttir skoraði annað mark sitt og þriðja mark Stjörnunnar í uppbótartíma.
Stjarnan er nú með fimm stiga forskot á Breiðablik sem á þó leik til góða gegn ÍBV sem var frestað í dag vegna veðurs.
ÍA er í vondri stöðu, á botni deildarinnar með átta stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
KR kom sér upp úr fallsæti með sigri á Fylki 3-1. Anna Birna Þorvarðardóttir kom KR yfir af vítapunktinum á 36. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik.
Jordan O'Brien kom KR svo í 2-0 á 62. mínútu og O'Brien var aftur á ferðinni á 82. mínútu með öðru marki sínu og þriðja marki KR.
Kristín Erna Sigurlásdóttir minnkaði muninn fyrir Fylki, sjö mínútum fyrir leikslok og lokatölur 3-1.
KR er því með tólf stig í áttunda sæti, stigi fyrir ofan fallsætin, en Fylkir er í sjöunda sætinu með þrettán stig og er því enn í bullandi fallhættu.
Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.
Meira má lesa um leik FH og Selfoss hér.
