Handbolti

Snorri markahæstur í Frakklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri í leik með íslenska landsliðinu.
Snorri í leik með íslenska landsliðinu. vísir/epa
Snorri Steinn Guðjónsson er markahæsti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir fjórar umferðir.

Snorri hefur skorað 41 mark, fjórum mörkum meira en vinur hans og fyrrum samherji, Mikkel Hansen hjá Paris Saint-Germain. Benjamin Bataille, leikmaður Ivry, er þriðji markahæstur leikmaður deildarinnar með 33 mörk.

Snorri hefur farið vel af stað með Nimes en hann gekk í raðir liðsins frá Sélestat í sumar. Sóknarleikur Nimes hefur verið góður það sem af er tímabili en aðeins tvö lið, PSG og Nantes, hafa skorað fleiri mörk en Nimes (130 mörk).

Snorri byrjaði á því að skora 12 mörk í 36-32 tapi fyrir PSG í 1. umferðinni og gerði svo sex mörk í sigri á Chambéry. Snorri átti svo stórleik í naumum sigri í Ivry í 3. umferðinni þar sem hann gerði 11 mörk og fylgdi því eftir með því að skora 12 mörk í fjögurra marka sigri á Toulouse í gær.

Leikstjórnandinn snjalli hefur því skorað 10 mörk eða meira í þremur af fjórum leikjum Nimes í deildinni.

Tuttugu af 41 marki Snorra hafa komið úr vítum en hann hefur verið mjög öruggur á vítalínunni það sem af er tímabili og skorað úr 20 af 21 vítakasti sínu. Skotnýting Snorra er heilt yfir mjög góð, eða 67,2%.

Snorri og Ásgeir á æfingu hjá Nimes.mynd/facebook-síða Nimes
Snorri er ekki eini Íslendingurinn í herbúðum Nimes en Ásgeir Örn Hallgrímsson er á sínu öðru tímabili hjá félaginu. Hafnfirðingurinn hefur einnig verið öflugur í upphafi móts og skorað 17 mörk í leikjunum fjórum. Ásgeir er 22. markahæsti leikmaður deildarinnar.

Snorri og Ásgeir hafa hjálpað Nimes að vinna þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum en liðið er í 3. sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum frá toppliði PSG.

Leikir Snorra með Nimes í vetur:

PSG 36-32 Nimes

12/7 mörk (16/7 skot) - 75,0%

Nimes 30-27 Chambéry

6/1 (11/2) - 54,6%

Ivry 35-36 Nimes

11/6 (15/6) - 73,3%

Nimes 32-28 Toulouse

12/6 (19/6) - 63,2%

Í heildina:

41/20 mark úr 61/21 skoti - 67,2%

10,3 mörk að meðaltali í leik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×