Íþróttir

Sevilla í 6. sætið
Sevilla komst í dag í 6. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 2-1 sigri á Athletic Bilbao. Freddie Kanoute, fyrrverandi leikmaður West Ham skoraði sigurmark Sevilla en vandræði Bilbao halda áfram og er liðið í fallsæti eða þriðja neðsta sæti.
Mönchengladbach upp um 3 sæti í það sjötta
Borussia Mönchengladbach lyfti sér upp um þrjú sæti og í það sjötta með 2-0 sigri á Arminia Bielefeld í þýsku Bundesligunni í fótbolta í dag en tveir leikir fóru þá fram. Þá skildu Eintracht Frankfurt og Wolfsburg jöfn, 1-1. Bayern Munchen er efst í deildinni þrátt fyrir ósigur á heimavelli í gær fyrir Hamburg, eru með 58 stig en Werder Bremen, sem gerði 1-1 jafntefli við Bayer Leverkusen er í 2. sæti með 50 stig. Mönchengladbach er með 33 stig í 6. sætinu.
Creteil í undanúrslit þrátt fyrir 8 marka tap
Franska liðið Creteil komst í kvöld í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða í handbolta þrátt fyrir 8 marka tap fyrir pólska liðinu Kielce, 26-34. Creteil vann reyndar fyrri leikinn með 14 marka mun, 35-21 en athygli vekur að pólska liðið skoraði 23 mörk í seinni hálfleik í viðureign liðanna í kvöld. Staðan í hálfleik var 12-11 fyrir Creteil.

Öruggur sigur Sebastien Loeb
Franski ökuþórinn Sebastien Loeb sem ekur á Citroen vann öruggan sigur í mexíkóska rallinu sem lauk í kvöld. Loeb varð 48,9 sekúndum á undan næsta nanni, Norðmanninum Petter Solberg, fyrrverandi heimsmeistara á Subaru en Frakkinn stakk af á 12. sérleið og gaf ekkert eftir þaðan af.

Guðmundur varð þrefaldur Íslandsmeistari
Guðmundur E. Stephensen, Víkingi, varð í dag þrefaldur Íslandsmeistari í borðtennis en Íslandsmótinu lauk í dag. Guðmundur sem er 23 ára hefur nú samtals unnið 100 Íslandsmeistaratitla í fullorðins og unglingaflokkum. Í dag tryggði hann sér titlana í einliðaleik, tvenndarkeppni og tvíliðaleik.

Tottenham í 5 stiga forskot á Arsenal
Tottenham gefur ekkert eftir í baráttunni um Meistaradeildarsæti en Robbie Keane var hetja liðsins sem lagði Blackburn, 3-2 í spennando leik á White Hart Lane nú síðdegis. Keane skoraði tvívegis í fyrri hálfleik en það var hins vegar egypski útlaginn Ahmed Mido sem tryggði Tottenham stigin þrjú þegar hann skoraði sigurmarkið á 70. mínútu.

Gengur vel hjá Arnari og félögum í Twente
Arnar Þór Viðarsson lék allan leikinn með Twente sem lagði Heracles Almelo, 2-0 í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Twente er á fljúgandi ferð í deildinni og hefur nú ekki tapað í 6 leikjum í röð. Twente færist upp tölfuna þessa dagana, er nú búið að fjarlægjast fallsvæðið og er í 9. sæti deildarinnar með 38 stig, fjórtán stigum frá fallsæti í þessari 18 liða deild.
Fiorentina upp fyrir Roma
Fiorentina endurheimti 4. sætið í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar liðið vann 2-1 sigur á Siena. Hinn ungi sóknarmaður Giampaolo Pazzini skoraði sigurmarkið í viðbótartíma og lyfti liði sínu upp fyrir Roma sem á leik til góða gegn Inter síðar í kvöld.

Sissoko á góðum batavegi
Mohamed Sissoko, miðvallarleikmaður Liverpool segist ætla að leika aftur með liðinu áður en þetta tímabil er á enda. Sissoko meiddist alvarlega á auga í Meistaradeildarleiknum gegn Benfica í lok febrúar eftir að Beto, leikmaður portúgalska liðsins, slysaðist til að sparka í auga leikmannsins. Nú hefur komið í ljós að meiðsli Sissoko eru ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu.

Klinsmann kallaður á teppið í þinginu
Jurgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu gæti þurft að mæta inn á teppið í þýska þinginu á næstu dögum og ekki af góðu. Þingmenn þar í landi eru órólegir í kjölfar þess að þýska landsliðið var tekið í bakaríið af Ítölum í vináttulansleik í vikunni þar sem úrslitin urðu 4-1 fyrir smjörgreiddu súkkulaðistrákana.

Enn tapar Sunderland
Sunderland er á hraðri niðurleið úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið var rétt í þessu að tapa fyrir Man City, 2-1. Georgios Samaras skoraði tvö mörk á 86 sekúndum snemma leiks fyrir heimamenn í Man City áður en Kevin Kyle minnkaði muninn fyrir Sunderland skömmu síðar. Sunderland lék manni færri síðustu mínúturnar þegar Gary Breen fékk að líta sitt annað gula spjald.

Lemgo í undanúrslitin
Ásgeir Örn Hallgrímsson og Logi Geirsson skoruðu 4 mörk hvor þegar lið þeirra Lemgo komst í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða í handbolta í dag. Lemgo lagði rússneska liðið Dynamo Astrakhan á útivelli 33-31 en þetta var síðari leikur liðanna.

Logi með 43 stig fyrir Bayreuth
Logi Gunnarsson átti stórleik með Bayreuth í þýska körfuboltanum í gær og skoraði 43 stig þegar liðið vann stórsigur á Tröster Breitengüßbach 111-105 í framlengdum leik.

Skjern úr leik
Skjern, lið Arons Kristjánssonar þjálfara féll í morgun úr Evrópukeppni bikarhafa í handbolta þegar liðið tapaði síðari leik sínum á útivelli fyrir rúmenska liðinu Constanta, 35-28. Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Skjern sem tapaði líka fyrri leiknum, 35-31.

Tiger með 2 högga forystu fyrir lokahringinn
Tiger Woods hefur tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Ford mótinu í golfi á Doral-vellinum á Miami í Flórída. Sýnt verður beint frá keppninni á Sýn í kvöld. Fjórir kylfingar voru jafnir fyrir keppni gærdagsins, Tiger Woods, Phil Mickelson, Scott Verplank og Camilo Villegas. Tiger Woods lék best þeirra í gær, lék á 4 undir pari og er samtals á 17 undir pari.
Miklir yfirburðir Gerplu
Gerpla varð í gær bikarmeistari karla og kvenna í fimleikum. Gerpla 1 varð bikarmeistari í kvennaflokki í frjálsri gráðu. Kristjana Sæunn Ólafsdóttir var stigahæst en hún varð hlutskörpust í keppni í stökki og golfæfingum. Gerpla varð einnig bikarmeistari í piltaflokki, hafði betur í baráttu við Ármenninga. Rúnar Alexandersson var bestur á tvíslánni en hann keppti ekki í öllum greinum í gær.
Styrktarmót fyrir tækwondomann
Í gær fór fram í Ingunnarskóla í Grafarvogi, styrktarmót Björns Þorleifssonar tækwondomanns. Björn er okkar besti tækwondomaður og framundan eru dýr og kostnaðarsöm ferðlög. Honum hefur t.d. verið boðið að æfa með kínverska landsliðinu. Hugmyndin um styrktarmót kom frá tækwondo-deild Fram sem leggur til húsnæði...

Ótrúlegur sigur Miami á Atlanta
Kobe Bryant skoraði 40 stig fyrir Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, þegar liðið lagði Detroit, 105-94. Miami Heat vann sinn áttunda leik í röð með naumum sigri á Atlanta Hawks, 95-93. Miami átti frábæran endasprett og náði að tryggja sér sigurinn á ótrúlegan hátt með 1.8 sekúndu eftir á klukkunni, eftir að hafa verið 17 stigum undir.

Milan og Juve unnu sína leiki
Juventus vann Sampdoria 1-0 í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Pavel Nedved skoraði eina mark leiksins á 69. mínútu. AC Milan vann Empoli 3-0 þar sem Filippo Inzahgi skoraði tvö markanna og Andrei Schevshenko eitt. Juventus er á toppi deildarinnar og hefur 10 stiga forystu á AC Milan. Í kvöld mætast Roma og Inter en leikurinn verður sýndur á Sýn extra klukkan 19:30.

Barcelona heldur 10 stiga forystu á Spáni
Barcelona og Real Madríd unnu bæði mótherja sína í spænsku knattspyrnunni í gærkvöldi. Barcelona lagði Deportivo La Coruña, 3-2 seint í gærkvöldi eftir að Real Madrid hafði lagt granna sína í Atletico, 2-1. Samuel Etoo skoraði sigurmark Börsunga á 61. mínútu.

Real Madrid vann nágrannaslaginn
Real Madrid vann 2-1 sigur á Atletico Madrid í nágrannaslagnum í spænska fótboltanum í kvöld. Liðið er nú í 2. sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Barcelona sem mætir Deportivo kl 21 í kvöld. Antonio Cassano og Julio Baptista skoruðu mörk Real Madrid. Tveimur öðrum leikjum er lokið í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Cadiz lagði Espanyol 2-0 og Villareal vann 3-2 sigur á Alaves.

Andorra mun vígja Wembley
Það verður knattspyrnulandslið smáríkisins Andorra sem mun leika fyrsta landsleikinn í fótbolta við England hinum nýja Wmbley, þjóðarleikvangi Englendinga sem verið er að leggja lokahönd á. Andorra er í E-riðli með Englendingum í undankeppni EM2008 og mætast þjóðirnar þann 2. september n.k. á Wembley.

Óli Stef með 4 mörk og Ciudad í undanúrslitin
Ólafur Stefánsson og félagar í Ciudad Real tryggðu sér í kvöld farseðilinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta þegar þeir lögðu Celja frá Slóveníu í 8 liða úrslitum, 33-28 á útivelli. Þetta var síðari viðureign liðanna í 8 liða úrslitunum en Ciudad vann fyrri leikinn með 7 marka mun, 34-27. Ólafur skoraði 4 mörk fyrir Ciudad í kvöld.

Fyrsta tap Federer í 56 leikjum
19 ára Spánverji, Rafael Nadal afrekaði það í dag að leggja að velli stigahæsta tenniskappa í heimi, hinn svissneska Roger Federer. Með sigrinum tryggði Spánverjinn sér sigur á opna meistaramótinu í Dubai en hann lagði Federer í tveimur settum gegn einu, 2-6, 6-4 og 6-4.

Liverpool og Charlton skildu jöfn
Liverpool og Charlton gerðu markalaust jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta nú í kvöld en leikið var á Anfield. Hermann Hreiðarsson lék að venju allan leikinn með liði Charlton. Liverpool skaust upp í 2. sæti deildarinnar með stiginu sem fékkst fyrir jafnteflið í kvöld og er nú með 45 stig, einu stigi ofar en Man Utd sem reyndar á tvo leiki til góða. Charlton er í 13. sæti með 36 stig.

Alfreð formlega tekinn við landsliðinu
Alfreð Gíslason tók í dag formlega við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í handbolta en hann skrifaði undir samning þess efnis á fréttamannafundi hjá HSÍ í dag. Upphaflega átti að skrifa undir í gær en vegna frestunar á flugi frá Þýskalandi var því seinkað þangað til í dag.

Guðjón Valur með 13 mörk fyrir Gummersbach
Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum og skoraði 13 mörk fyrir Gummersbach í dag þegar liðið tryggði sig í undanúrslit Evrópukeppni félagsliða (EHF keppninni) í handbolta þrátt fyrir tap gegn spænska liðinu Bidasoa, 30-26. Róbert Gunnarsson lék einnig með Gummersbach í dag og skoraði tvö mörk.

Fram á toppinn í handboltanum
Fram tyllti sér á topp DHL-deildar karla í handbolta í dag með tveggja marka sigri á ÍBV á erfiðum útivelli í Eyjum, 32-34. Tveir leikir fóru fram hjá körlunum í efstu deild en Stjarnan lagði Hauka í Ásgarði með 5 marka mun, 33-28.

Loks tapaði Bayern Munchen á heimavelli
Bayern Munchen tapaði sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu í þýska Bundesligunni í fótbolta í dag þegar Hamburger SV kom í heimsókn til Munchen og vann 1-2 útisigur. Hollendingurinn Nigel de Jong skoraði sigurmarkið á 89. mínútu eftir að Memeth Scholl hafði jafnað metin fyrir heimamenn, 6 mínútum áður.
Toppliðin unnu sína leiki
Tveir leikir fóru fram í DHL-deild kvenna í handbolta í dag þar sem toppliðin tvö unnu bæði leiki sína. Topplið Hauka vann Gróttu örugglega á útivelli, 22-32 og ÍBV lagði Valsstúlkur í Eyjum, 22-18. Haukatúlkur eru efstar með 24 stig en ÍBV í 2. sæti með 23 stig. Valsstúlkur eru í 3. sæti með 22 stig í harðri toppbaráttu hjá stúlkunum.