Innlent

Þór­dís Kol­brún blæs á sögu­sagnir um vista­skipti

Jakob Bjarnar og Lovísa Arnardóttir skrifa
Þórdís Kolbrún segir ekkert hæft í sögusögnum um að hún sé að færa sig um set.
Þórdís Kolbrún segir ekkert hæft í sögusögnum um að hún sé að færa sig um set. Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra og varaformaður flokksins, segist engar ákvarðanir hafa tekið um breytingar á sínum högum. Það segir Þórdís í SMS-skilaboðum til fréttastofu.

„Ég hef engar ákvarðanir teknar um breytingar á mínum högum – læt vita ef það breytist,“ segir hún í skilaboðunum. Hún hefur ekki gefið kost á samtali vegna málsins.

Páll Magnússon, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum og fyrrverandi útvarpsstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að það væru sögusagnir um það í „ákveðnum kreðsum um helgina“ að annar áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins væri að fara í nýtt starf. Þórdís Kolbrún væri að verða sendiherra.

Páll Magnússon var fréttamaður til margra ára áður en hann sneri sér að stjórnmálum. Þá var hann um tíma útvarpsstjóri.Vísir/Ívar Fannar

Vísaði Páll þar til fregna gærdagsins um að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, myndi taka við starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þann 1. mars.

„En þetta, tekið fram, þetta voru sögusagnir í ákveðnum kreðsum … ég myndi alla vega ráðleggja ykkur að hringja í fréttastofuna hér á eftir og láta hana hringja í einhvern sem veit,“ sagði Páll í Bítinu í morgun.

Fréttastofa hafði samband við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í síðustu viku vegna þessa sem kom af fjöllum. Hún sagði blaðamann segja sér fréttir. Þá svaraði Þórdís Kolbrún fyrirspurn fréttastofu í gærkvöldi hvort eitthvað væri hæft í því að hún væri að hverfa af þingi og að taka stöðu á erlendum vettvangi. Þórdís svaraði skriflega í SMS-i og sagðist ekki hafa tekið neina ákvörðun um breytingar á sínum högum. Hún myndi láta vita ef það breyttist. Svör hennar í framhaldi af sögusögnum Páls í Bítinu í morgun voru á sömu leið.

Bryndís yrði fyrsti þingmaður

Hyrfi Þórdís af þingi og til annarra starfa þýddi það breytingar á þingliði Sjálfstæðisflokksins en hann er stærstur í Suðvesturkjördæmi með 23,4 prósent atkvæða. Þórdís er fyrsti þingmaður Kragans en Bryndís Haraldsdóttir tæki við sem slík. Þá hefur Þórdís gengt stöðu sérstaks erindreka framkvæmdastjóra Evrópuráðsins gagnvart úkraínskum börnum, staða sem hún hefur nú sinnt í tæpt ár.

Þegar Bjarni Benediktsson gaf það út að hann myndi ekki gefa kost á sér sem formaður flokksins fyrir síðasta landsfund, og að hann vildi draga sig úr stjórnmálum, litu flestir til Þórdísar. Hún hins vegar gaf það frá sér og Guðrún Hafsteinsdóttir varð formaður eftir harðan slag við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.

Hlakkaði til að verða frjálsari

Þórdís sagði við það tækifæri að hún hlakkaði til að verða óbreyttur þingmaður á eigin forsendum – og hluti af liði. 

„Ég hlakka til að vera frjálsari, fá meiri tíma til að lesa bækur og skrifa, rækta það að hafa skynbragð og skilning á því sem er að gerast í kringum okkur, og veldur mér raunverulegum áhyggjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×