Handbolti

Utan vallar: Ég get ekki meir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ungverjar fagna sigri gegn Íslandi í Kristianstad árið 2023. Svona myndir viljum við ekki sjá í kvöld.
Ungverjar fagna sigri gegn Íslandi í Kristianstad árið 2023. Svona myndir viljum við ekki sjá í kvöld. vísir/epa

Íslenska handboltalandsliðið og grýlur. Það er verulega þreytt og Ungverjagrýlan er litlu skárri en Svíagrýlan á sínum tíma.

Staffan Olsson, Mats Olsson, Magnus Wislander og fleiri goðsagnir Svía eyðilögðu svefn Íslendinga á árum áður en síðustu ár hafa það verið menn eins og Laszlo Nagy og Bence Banhidi frá Ungverjalandi.

Jarðarför Svíagrýlunnar er mér mjög eftirminnileg enda fór hún fram í Stokkhólmi árið 2006. Þá hafði Ísland ekki unnið Svía í alvöru landsleik í heil 42 ár.

Ísland vann 28-32 í Globen þar sem stóru sleggjurnar hjá Einari Hólmgeirs standa upp úr. Ég gleymi seint gleðinni er ég hljóp niður þrönga stiga Globen-hallarinnar með sigurbros á vör. Ég hreinlega sveif niður. Yndislegt.

Svíagrýlan var svo formlega jörðuð í Laugardalshöll þann 17. júní í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2007. Það reyndar gleymist í sigurvímunni að leikurinn í Höllinni tapaðist. Stóri sigurinn í Stokkhólmi sá til þess að liðið fór samt áfram.

Okkur hefur gengið ágætlega að glíma við Svía síðan og vonandi náum við að skella þeim aftur á þeirra heimavelli í milliriðlinum.

Síðasta sólarhringinn hafa hellst yfir mann ömurlegar minningar frá leiknum gegn Ungverjum í Kristianstad fyrir þremur árum síðan. Ég mun seint skilja hvernig strákarnir köstuðu þeim leik frá sér.

Sex mörkum yfir komu átján mínútur frá helvíti. Liðinu féll allur ketill í eld og tapaði lokakaflanum 11-3. Martröð! Þó ekkert í líkingu við martröðina á ÓL árið 2012 er Ungverjar krömdu öll hjörtu íslensku þjóðarinnar. Leikurinn sem ekki má tala um. Svo muna margir eftir því er Ungverjar eyðilögðu leið strákanna okkar í undanúrslit í Kumamoto 1997.

Til að bæta gráu ofan á svart þá flengdu Ungverjarnir okkar lið á EM fyrir tveimur árum síðan. Grýlan lifir svo sannarlega góðu lífi.

Þetta er orðið hrikalega þreytt og ég trúi ekki öðru en að strákarnir okkar mæti í hefndarhug og jarði þessa blessuðu Ungverjagrýlu með stæl í kvöld.  Það bara verður að gerast. Ég get ekki meir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×