Handbolti

Sögu­legur fær­eyskur stór­sigur á EM

Aron Guðmundsson skrifar
Oli Mittun fór fyrir færeyska landsliðinu í leik dagsins
Oli Mittun fór fyrir færeyska landsliðinu í leik dagsins Vísir/EPA

Færeyjar unnu sinn fyrsta sigur á stórmóti í handbolta í kvöld þegar að liðið valtaði yfir Svartfjallaland í D-riðli EM. Lokatölur 24-37 og von Færeyja um sæti í milliriðlum lifir.

Eftir að hafa náð í jafntefli í fyrstu umferð riðlakeppninnar gegn Sviss á dramatískan hátt var mikil stemning hjá færeysku þjóðinni fyrir leik dagsins og sömuleiðis var stemningin hjá færeyska landsliðinu mjög góð.

Það sást strax frá upphafi leiks og segja má að fyrri hálfleikurinn gegn Svartfellingum í dag hafi verið eign Færeyinga frá A til Ö og að honum loknum leiddu Færeyjar með nítján mörkum gegn tólf. 

Hakun West Av Teigum og Oli Mittun fóru hamförum í fyrri hálfleiknum fyrir færeyska landsliðið. Hakun skoraði sex mörk í honum á meðan að Oli skoraði fimm og lagði upp fimm mörk sömuleiðis.

Færeyingar hömruðu járnið á meðan að það var heitt og yfirburðir liðsins í leiknum jukust bara eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og svo fór að Færeyjar unnu þrettán marka stórsigur, 37-24. 

Fyrsti sigurleikur liðsins á stórmóti staðreynd. Færeyjar eru með þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki sína á toppi D-riðils en Slóvenía og Sviss mætast seinna í kvöld. Færeyjar mæta Slóvenum í síðustu umferð riðlakeppninnar og geta þar tryggt sér sæti í milliriðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×