Handbolti

Pól­verji dæmdur í tveggja leikja bann og verður ekki með gegn Ís­lendingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þátttöku Wiktors Jankowski (lengst til hægri) á EM gæti verið lokið.
Þátttöku Wiktors Jankowski (lengst til hægri) á EM gæti verið lokið. epa/Johan Nilsson

Wiktor Jankowski, leikmaður pólska handboltalandsliðsins, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann. Hann verður því fjarri góðu gamni þegar Pólverjar mæta Íslendingum í F-riðli Evrópumótsins á morgun.

Jankowski fékk að líta rauða spjaldið í byrjun seinni hálfleiks í viðureign Póllands og Ungverjalands í gærkvöldi. Hann sló þá ungverska línumanninn Miklós Rosta í andlitið. 

Aganefnd EM hefur úrskurðað Jankowski í tveggja leikja bann en brot hans þótti gróft og háskalegt.

Jankowski spilar því ekki meira með Póllandi í riðlakeppninni á EM. Pólverjar mæta Íslendingum á morgun og Ítölum á þriðjudaginn. Hinn 24 ára Jankowski leikur með Vardar í Norður-Makedóníu.

Pólland tapaði leiknum gegn Ungverjalandi, 29-21, og þarf því nauðsynlega að ná í stig gegn Íslandi til að eiga möguleika á að komast í milliriðil.

Leikur Íslands og Póllands hefst klukkan 17:00 á morgun. Honum verða gerð ítarleg skil á Vísi og miðlum Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×