Handbolti

„Átti al­veg von á því að þetta tæki lengri tíma“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Snorri Steinn hlustar á ráðleggingar Arnórs Atlasonar í leiknum gegn Ítalíu.
Snorri Steinn hlustar á ráðleggingar Arnórs Atlasonar í leiknum gegn Ítalíu. EPA/Johan Nilsson SWEDEN OUT

„Ég er bara mjög ánægður með liðið. Mér fannst þetta frábær leikur og góður sigur af okkar hálfu“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson eftir mjög öruggan 39-26 sigur gegn Ítalíu í fyrsta leik Íslands á EM. Hann byrjar nú að undirbúa liðið fyrir næsta leik gegn Póllandi en það verður eilítið erfitt.

Klippa: Snorri Steinn sáttur með sigurinn gegn Ítalíu

Strákarnir okkar fóru létt með fyrsta leik, þó liðið hafi hökt aðeins í upphafi leiks og tekið sér smá tíma í að stilla miðið.

„Mér fannst þetta ekki vera neitt hökt. Þetta er bara gott lið sem við vorum að mæta og ég átti alveg von á því að þetta tæki lengri tíma. Mér fannst við samt fínir í byrjun, klikkuðum aðeins á færum og gáfum þeim auðveld mörk þarna hægra megin en vorum fljótir að stoppa það. Eitt leiddi af öðru en það var mjög gott að hafa þetta forskot í hálfleik.“

Snorri Steinn stóðst ekki mátið gegn þessu óhefðbundna ítalska liði og lét Ísland líka spila án línumanns.

„Við prófuðum alls konar hluti og gerðum alls konar en aðalhugmyndin var að láta þá hugsa, pæla í hverju þeir ættu að gera og helst láta þá glíma við fleiri en einn hlut í einu. Það virkaði vel.“

Pólverjar í feluleik

Nú hefst undirbúningur fyrir næsta leik, gegn Póllandi á sunnudag. Snorri segist ekki hafa hugsað um neitt annað en Ítalina síðustu daga og mun eiga aðeins erfiðara með að undirbúa liðið fyrir leikinn gegn Póllandi því þar hefur hann úr minna myndefni að moða.

„Ég er ekkert að grínast með það, ég er bara búinn að hugsa um Ítalíu síðustu þrjá daga. Nú tekur við næsta verkefni og við byrjum á því í kvöld. Það verður líka krefjandi, Pólverjarnir eru búnir að vera í einhverjum feluleik þannig að við erum ekki með æfingaleikina þeirra fyrir mót eða annað slíkt. Við þurfum að kíkja vel á þá.“

Viðtalið við Snorra má sjá í spilaranum að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×