Innlent

Bærinn fær 70 milljónir fyrir gamla Landbankahúsið sem fær nýtt hlut­verk

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lagt er upp með að þrátt fyrir breytt hlutverk fái gamla Landsbankahúsið á Akranesi að halda sínum gamla stíl.
Lagt er upp með að þrátt fyrir breytt hlutverk fái gamla Landsbankahúsið á Akranesi að halda sínum gamla stíl. Akranes

Akranesbær hefur gengið frá sölu á gamla Landsbankahúsinu á Akranesi sem stefnt er að því að fái nýtt hlutverk. Söluverðið er sjötíu milljónir en það er fyrirtækið Hraun fasteignafélag ehf. sem er kaupandi en ætlunin er að opna hótel og veitingastað í húsinu eftir að það hefur verið gert upp. Þó er lagt upp með að húsið haldi upprunalegum stíl og einkennum sínum eins og kostur er.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Akraness.

Fyrir tæpu ári auglýsti Akraneskaupstaður eftir aðila til samstarfs um skipulag og þróun á reit sem inniheldur lóðirnar Suðurgötu 57, 47 og Skólabraut 24, vestan við Akratorg. Jafnframt var þá óskað eftir kauptilboði í gamla Landsbankann. Engin tilboð bárust, en nokkrir aðilar sýndu húsinu áhuga í framhaldi af því. Söluverðið nú er 70 milljónir króna sem er í samræmi við útboðsgögn. Samkomulag er um að kaupendur hafi tíma til að vinna að skipulagi á þeim reitum og ákveða síðar um kaup á byggingarrétti þar,“ segir meðal annars í tilkynningu bæjarins.

Framkvæmdir gætu hafist á vordögum

Þar er haft eftir Haraldi Benediktssyni bæjarstjóra að um sé að ræða tímamót fyrir bæinn.

„Fyrir það fyrsta er hér samkomulag við kaupendur sem hafa reynslu af uppbyggingu á ferðaþjónustu og endurnýjun á eldri húsum. Í öðru lagi er nú loksins að komast á skrið undirbúningur að opnun á hóteli á Akranesi. Mestu máli skiptir að salan er upphaf að eflingu miðbæjarins. Akraneskaupstaður mun í framhaldinu leita leiða til að efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein á Akranesi,“ er haft eftir Haraldi.

Haraldur Benediktsson er bæjarstjóri Akraness.Vísir/Ívar Fannar

Kaupendur munu hafa tíma til að huga að ástandi hússins á næstu vikum en ef allt gengur eftir má búast við að framkvæmdir hefjist með vorinu, en bygging fjórðu hæðar hússins fer í skipulagsferli.

„Við sjáum mikil tækifæri í Akranesi sem áfangastað ferðamanna,“ er haft eftir ónefndum fulltrúa Hrauns fasteignafélags ehf. í tilkynningunni. „Bærinn býr yfir sterkri sérstöðu bæði hvað varðar náttúru, sögu og nálægð við höfuðborgarsvæðið, en einnig í öflugu samfélagi og miðbæ sem hefur burði til frekari uppbyggingar. Með þessu verkefni viljum við leggja okkar af mörkum til að styrkja miðbæinn, skapa lifandi þjónustu og taka þátt í markvissri uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, í nánu samstarfi við sveitarfélagið og aðra hagsmunaaðila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×