Handbolti

Sig­valdi ekki hafnað launa­lækkun

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson á HM fyrir ári síðan. Hann er ekki í EM-hópnum nú.
Sigvaldi Björn Guðjónsson á HM fyrir ári síðan. Hann er ekki í EM-hópnum nú. Getty/Luka Stanzl

Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson segir það eflaust verða skrýtið að fylgjast með komandi stórmóti í handbolta í sjónvarpinu. Hann er nú að skoða sín mál hjá norska félaginu Kolstad sem neyðist til að lækka laun hans og fleiri leikmanna.

Sigvaldi er fyrirliði Kolstad og hefur verið hjá félaginu síðan 2022, og haft fjölda Íslendinga sem liðsfélaga. 

Eftir að hafa spennt bogann hátt og ætlað sér stóra hluti í Evrópu hefur félagið neyðst til að draga saman seglin og farið fram á það við Sigvalda og fleiri lykilleikmenn að þeir taki á sig launalækkun.

Ekki hefur náðst samkomulag um þetta og samkvæmt frétt TV 2 í Noregi í dag þá mun til að mynda Simen Lyse fara frá Kolstad til PSG strax eftir Evrópumótið, en ekki í sumar eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Sigvaldi segir sín mál enn til skoðunar en að honum sé frjálst að skoða aðra kosti fyrst Kolstad geti ekki staðið við gerða samninga.

„Ég hef ekki neitað neinu. Við erum enn í viðræðum og að reyna að finna einhverja lausn,“ segir Sigvaldi.

„Þannig er staðan núna. Þetta tekur bara tíma og við erum að reyna að finna bestu lausn fyrir mig og Kolstad,“ bætir hann við og kveðst opinn fyrir öllu hvað framhaldið snerti.

Skrýtið og óþægilegt að horfa á EM í sjónvarpinu

Sigvaldi hefur verið í hægra horninu hjá íslenska landsliðinu á síðustu sjö stórmótum í röð, eða frá og með HM 2019, en er ekki í EM-hópnum núna. Meiðsli í læri hafa þar mikið að segja:

„Staðan er ágæt. Ég tognaði smá í bikarúrslitaleiknum 29. desember og er eiginlega búinn að jafna mig á því en ekki testa það hundrað prósent. Ég mun æfa handbolta í þessari viku, eftir að hafa bara verið að hlaupa og lyfta, svo ég er að verða klár. En þetta hefur verið vesen síðan í síðasta landsliðsverkefni,“ segir Sigvaldi sem býr sig nú undir að horfa á EM í sófanum:

„Það verður mjög skrýtið að fylgjast með þessu í sjónvarpinu. Þetta verður örugglega pínu óþægilegt. En ég er bara spenntur fyrir strákunum. Þetta hefur lúkkað mjög vel í æfingaleikjunum. En það verður mjög spes að vera bara heima þegar mótið byrjar,“ segir Sigvaldi sem heldur sambandi við sjúkraþjálfara landsliðsins og verður til taks ef á þarf að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×