Enski boltinn

Búast við því að Carrick verði kynntur hjá United innan tíðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Carrick varð fimm sinnum Englandsmeistari sem leikmaður með Manchester United.
Michael Carrick varð fimm sinnum Englandsmeistari sem leikmaður með Manchester United. getty/Catherine Ivill

Allt virðist benda til þess að Michael Carrick taki við sem þjálfari Manchester United og stýri liðinu út tímabilið.

Carrick og Ole Gunnar Solskjær hafa báðir rætt við forráðamenn United en samkvæmt enskum fjölmiðlum er sá fyrrnefndi líklegri til að taka við liðinu.

Búist er við því að Carrick verði kynntur sem nýr þjálfari United á næstu tveimur sólarhringum og muni stýra sinni fyrstu æfingu hjá liðinu á miðvikudaginn. Hann verði svo við stjórnvölinn í borgarslagnum gegn Manchester City á laugardaginn.

Ruben Amorim var rekinn frá United í síðustu viku og Darren Fletcher stýrði liðinu í tveimur leikjum; 2-2 jafntefli við Burnley í ensku úrvalsdeildinni og 1-2 tapi fyrir Brighton í ensku bikarkeppninni.

Carrick stýrði United í þremur leikjum eftir að Solskjær var látinn fara frá félaginu haustið 2021. Hann stýrði svo Middlesbrough á árunum 2022-25.

Hinn 44 ára Carrick lék í tólf ár með United og var síðan í þjálfarateymi liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×