Enski boltinn

Mátti ekki koma inn á vegna þess að hún var með eyrnalokk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Estelle Cascarino tókst ekki að fjarlægja lokk úr eyra sínu þegar hún átti að koma inn á í leik Chelsea og West Ham United.
Estelle Cascarino tókst ekki að fjarlægja lokk úr eyra sínu þegar hún átti að koma inn á í leik Chelsea og West Ham United. getty/Juventus FC

Ekkert varð af því að Estelle Cascarino þreytti frumraun sína með West Ham United í gær. Ástæðan var nokkuð sérstök.

Hin franska Cascarino kom til West Ham á láni frá Juventus í síðustu viku. Hún byrjaði á varamannabekknum þegar West Ham mætti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær en gerði sig tilbúna til að koma inn á í byrjun seinni hálfleiks.

Cascarino var hins vegar bannað að fara inn á völlinn þar sem hún var með eyrnalokk. Hún setti límband yfir hann en samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins er bannað að spila með skartgripi.

Cascarino gat ekki tekið eyrnalokkinn úr eyranu og því varð hún að setjast aftur á bekkinn og gera sér að góða að fylgjast með seinni hálfleiknum þaðan.

West Ham tapaði leiknum gegn Englandsmeisturum Chelsea með fimm mörkum gegn engu. Hamrarnir eru í ellefta og næstneðsta sæti ensku deildarinnar með aðeins fimm stig eftir tólf leiki.

Hin 28 ára Cascarino hefur leikið sextán landsleiki fyrir Frakkland. Hún er tvíburasystir Delphine Cascarino, leikmanns franska landsliðsins og San Diego Wave í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×