Fótbolti

Hákon lagði upp en Endrick sá til þess að Lille félli úr bikarnum

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum gegn Lyon í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum gegn Lyon í kvöld. Getty/Franco Arland

Hákon Arnar Haraldsson lagði upp mark fyrir Lille í dag en það dugði skammt þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Lyon og féll úr leik í 32-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í fótbolta.

Lille mátti þola algjöra martraðarbyrjun því strax á fyrstu mínútunni gerði markvörðurinn Arnaud Bodart skelfileg mistök og færði Afonso Moreira mark á silfurfati.

Hákon nýtti sér að sama skapi mistök markvarðar Lyon þegar hann lagði upp jöfnunarmark fyrir Nathan Ngoy á 28. mínútu.

Lyon náði hins vegar að komast yfir að nýju rétt fyrir hálfleik og þar var á ferðinni brasilíska ungstirnið Endrick, kominn að láni til félagsins frá Real Madrid.

Ekkert var skorað í seinni hálfleiknum og Lille byrjar því nýja árið frekar illa, því áður hafði liðið tapað 2-0 á heimavelli gegn Rennes í frönsku deildinni fyrir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×