Fótbolti

Nkunku braut hjörtu Alberts og fé­laga

Valur Páll Eiríksson skrifar
Albert lagði upp mark en það dugði skammt.
Albert lagði upp mark en það dugði skammt. Getty

Fiorentina gerði grátlegt jafntefli við toppbaráttulið AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Albert Guðmundsson lagði upp mark þeirra fjólubláu.

Albert var í byrjunarliði Fiorentina sem hefur átt í miklum vandræðum á leiktíðinni. Liðið sat í 18. sæti fyrir leik dagsins, jafnt botnliðunum tveimur fyrir neðan að stigum.

AC Milan aftur á móti á hinum enda töflunnar og á í jafnri toppbaráttu við granna sína í Inter Milan.

Leikurinn var tíðindalítill framan af en á 66. Mínútu dró til tíðinda. Albert tók þá hornspyrnu sem var hættuleg, fann höfuð Pietro Comuzzo sem skallaði boltann í netið af nærstönginni.

Þeir fjólubláu frá Flórens reyndu hvað þeir gátu að sigla sigrinum í hús en lið AC Milan er ekki svo auðveldlega lagt að velli, enda ekki tapað í 17 leikjum í deild fyrir þann í dag.

Frakkinn Christopher Nkunku jafnaði leikinn á 90. mínútu og þar við sat. 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Þó um að ræða mikilvægt stig fyrir Fiorentina sem er í 18. sæti, fallsæti, með 14 stig, tveimur frá Genoa sem er í neðsta örugga sætinu.

AC Milan er með 40 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur á eftir toppliði Inter sem á leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×