Fótbolti

Gekk í skrokk á liðsfélaga í miðjum leik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Óhætt er að segja að Kevin Behrens hafi misst sig.
Óhætt er að segja að Kevin Behrens hafi misst sig. Flaviu Buboi/NurPhoto via Getty Images

Hegðun þýska framherjans Kevins Behrens í æfingaleik svissneska liðsins Lugano við Viktoria Plzen frá Tékklandi á föstudag er ekki til útflutnings. Hann fór illa með ungan liðsfélaga.

Lugano og Plzen áttust við í æfingaleik á Spáni, en vetrarpása er í deildum beggja liða.  Eftir um sjötíu mínútna leik bar á rifrildi milli Behrens, sem er 34 ára gamall þýskur framherji, og grísks liðsfélaga hans, Giorgos Koutsias.

Eitthvað voru þeir ósammála um pressu liðsins og hvernig ætti að hátta henni og úr varð hávaðarifrildi. Behrens gekk skrefinu lengra, þeystist að Koutsias og negldi hann í jörðina.

„Þegiðu fíflið þitt,“ á reynsluboltinn Behrens að hafa öskrað á Koutsias, sem er 13 árum yngri, og vissi ekki sitt rjúkandi ráð.

Myndskeið af atvikinu hefur verið sem eldur um sinu á alnetinu um helgina og það má sjá að ofan.

Lugano-menn virtust missa hausinn eftir atvikið en staðan var 1-1 þegar það kom upp. Leiknum lauk 4-2 fyrir Plzen.

Félagið hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um atvikið og óljóst hverjar afleiðingar þess verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×