Fótbolti

Roberto Carlos sendur í hjarta­að­gerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Carlos birti þessa mynd af sér á sjúkrahúsinu og fullvissar alla um að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur.
Roberto Carlos birti þessa mynd af sér á sjúkrahúsinu og fullvissar alla um að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur. @oficialrc3

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Roberto Carlos þurfti að eyða hluta jólahátíðarinnar á sjúkrahúsi en segir aðdáendum sínum að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur.

Þessi 52 ára gamli kappi þurfti að gangast undir hjartaaðgerð, að því er spænskir fjölmiðlar greina frá og hann sjálfur hefur nú staðfest. Hann segir þó að spænskir fjölmiðlar hafi málað að einhverju leyti skrattann á vegginn.

Carlos var staddur í fríi í Brasilíu ásamt fjölskyldu sinni. Eftir að læknar fundu blóðtappa í fæti leiddi líkamsskoðun í ljós að hann væri með hjartavandamál og var hann því skorinn upp.

Aðgerðin, sem áætlað var að tæki fjörutíu mínútur, tók allt að þrjár klukkustundir vegna smá vandamála að sögn spænska blaðsins AS.

Roberto Carlos er nú undir nánu eftirliti og verður það næstu sólarhringa til að tryggja góðan bata.

Fyrir fram ákveðið

Roberto Carlos sjálfur notaði samfélagsmiðla til að segja frá því að aðgerðin hafi verið fyrir fram ákveðin og að engir fylgikvillar hafi komið upp meðan á henni stóð.

„Ég gekkst undir fyrirbyggjandi læknisaðgerð sem var fyrir fram skipulögð með læknateyminu mínu. Aðgerðin heppnaðist vel og ég hef það gott. Ég fékk ekki hjartaáfall,“ skrifaði Roberto Carlos.

„Bati minn gengur vel og ég hlakka til að ná fullri heilsu á ný og snúa aftur til starfa og persónulegra skuldbindinga innan tíðar. Ég þakka innilega öllum fyrir stuðningskveðjur, umhyggju og áhyggjur,“ skrifaði Roberto Carlos.

Engin ástæða til að hafa áhyggjur

„Ég vil fullvissa alla um að engin ástæða er til að hafa áhyggjur. Ég sendi læknateyminu öllu sem annaðist mig mínar innilegustu þakkir,“ skrifaði Roberto Carlos.

Brasilíumaðurinn hefur spilað 125 landsleiki og unnið bæði gull og silfur á HM. Hann er talinn einn besti vinstri bakvörður sögunnar.

Stærstum hluta ferils síns eyddi hann hjá Real Madrid þar sem hann spilaði 370 leiki á árunum 1996 til 2007.

Hann lagði skóna á hilluna árið 2016 og er í dag sendiherra Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×