Fótbolti

„Þú birtir falsfrétt um mig, þú ert í banni“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mourinho er þekktur fyrir að standa fastur á sínu.
Mourinho er þekktur fyrir að standa fastur á sínu. Luis Loureiro/Eurasia Sport Images/Getty Images

José Mourinho, þjálfari Benfica í Portúgal, virðist meðvitaður um fréttaflutning um sjálfan sig líkt og kom fram á blaðamannafundi hans á dögunum. Fréttamaður á fundinum fékk engum spurningum svarað.

Ekki fylgir sögunni hver fréttamaðurinn er eða um hvað fréttin snerist. Mourinho sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 1-0 sigur á Famalicao í vikunni.

„Fals, fals,“ sagði Mourinho þegar blaðamaðurinn hóf að bera upp spurningu sína. Að henni lokinni sagði Mourinho: „Þú skrifaðir um mig. Sem viðfangsefni þeirrar fréttar get ég sagt þér að það er falsfrétt“.

Blaðamaðurinn endurtók þá spurninguna og Mourinho sagði: „Þú ert í banni. Ég mun ekki svara. Kannski í næstu viku,“ og glotti við.

Mourinho tók við Benfica í haust eftir erfiða byrjun liðsins á leiktíðinni. Benfica situr í þriðja sæti portúgölsku deildarinnar með 35 stig, þremur á eftir grönnum sínum í Sporting Lissabon og átta stigum frá toppliði Porto, sem Mourinho stýrði á sínum tíma við góðan orðstír.

Benfica sækir Braga heim í næstu umferð deildarinnar þann 28. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×