Fótbolti

Mbappé breytti um fagn af góðu til­efni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnaði sögulegu marki sínu með því heiðra Cristiano Ronaldo.
Kylian Mbappe fagnaði sögulegu marki sínu með því heiðra Cristiano Ronaldo. Getty/Mateo Villalba

Kylian Mbappé skráði nafn sitt enn á ný í metabækurnar á laugardaginn þegar hann jafnaði met Cristiano Ronaldos yfir flest mörk skoruð fyrir Real Madrid á einu almanaksári.

Þessi áfangi var næstum því runninn úr greipum franska framherjans þar til hann skoraði úr vítaspyrnu þegar aðeins fjórar mínútur voru eftir af leiknum og tryggði 2-0 sigur á tíu leikmönnum Sevilla í síðasta leik Real Madrid á árinu.

Hann fagnaði afrekinu, sem hann náði í hús á 27 ára afmælisdegi sínum, með látlausri útgáfu af hinu þekkta „Siu“-fagni Ronaldos áður en hann sendi fingurkoss í átt að sjónvarpsmyndavélunum.

„Þetta var sérstakur dagur,“ sagði Kylian Mbappé. „Við unnum leikinn, sem var mikilvægt því það var markmiðið. Hvað metið varðar, þá er ótrúlegt að á mínu fyrsta ári hafi ég náð því sem Cristiano gerði, besti leikmaður í sögu Real Madrid og fyrirmynd í heimsfótboltanum.“

„Þetta er heiður fyrir mig. Hann hefur alltaf sýnt mér hlýju, talað við mig um Real Madrid og hvernig ég ætti að aðlagast. Ég er mjög ánægður núna að skora mörk fyrir Real Madrid,“ sagði Mbappé.

„Fagnið var fyrir hann. Ég er yfirleitt með mitt eigið fagn, en ég vildi deila því með honum í dag. Hann var átrúnaðargoðið mitt þegar ég var krakki, ég á gott samband við hann og nú er hann vinur minn,“ sagði Mbappé.

Fyrrum stjarna Paris Saint-Germain, sem gekk til liðs við Madrid sumarið 2024, hefur skorað 29 mörk fyrir Madrid í öllum keppnum á þessu tímabili. 

Mbappé er þar einu marki á eftir Harry Kane hjá Bayern München yfir flest mörk skoruð af leikmanni úr félagi í fimm efstu deildum Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×