Fótbolti

Táningur fær mikið hrós fyrir við­brögð sín þegar mót­herji missti með­vitund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Vuskovic var bæði fljótur að átta sig og fljótur að taka ábyrgð í óhuganlegum aðstæðum.
Luka Vuskovic var bæði fljótur að átta sig og fljótur að taka ábyrgð í óhuganlegum aðstæðum. Getty/Christian Charisius

Knattspyrnumaðurinn Luka Vuskovic er ekki gamall en hann vissi upp á hár hvernig ætti að bregðast við í lífshættulegum aðstæðum í leik í þýsku deildinni um helgina. Fyrir vikið var hann hetja dagsins og helgarinnar í þýska boltanum.

Vuskovic greip þá til mögulega lífsbjargandi aðgerða eftir að Rasmus Kristensen meiddist í 1-1 jafntefli Hamburg og Frankfurt.

Þessi átján ára gamli leikmaður flýtti sér að tryggja að Kristensen myndi ekki gleypa tunguna eftir að hann og Miro Muheim skullu saman. Kristensen, leikmaður Frankfurt, var skipt af velli stuttu síðar en slapp við alvarleg meiðsli.

Um miðjan seinni hálfleik lenti Kristensen í umræddu slæmu samstuði og lá hreyfingarlaus á grasinu í nokkrar sekúndur á eftir.

Hinn átján ára varnarmaður HSV hljóp að Dananum, sem var meðvitundarlaus, velti honum á hliðina og setti fingur upp í munn hans til að koma í veg fyrir að hann kyngdi tungunni.

Strax á eftir kom læknateymi Frankfurt á staðinn og tók við meðferð Kristensens, sem kom fljótt til meðvitundar og gaf til kynna að hann væri tilbúinn að halda áfram.

„Þetta var skelfileg stund þegar Rasmus lenti í samstuði við Muheim. Hæsta hrós til Vuskovic, sem áttaði sig á aðstæðum og brást mjög skjótt við,“ sagði Dino Toppmöller, þjálfari Frankfurt, á heimasíðu félagsins.

Kristensen var áfram á vellinum í nokkrar mínútur eftir óhappið áður en honum var skipt út af.

Að sögn Toppmöller var skiptingin þó ekki eingöngu vegna hins harða samstuðs.

„Hann var líka í smá vandræðum með lærið. En Rasmus hefur það gott,“ sagði þjálfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×