Lífið

Dench segir Weinstein hafa mátt þola nóg

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Dench og Weinstein á góðri stundu fyrir tuttugu árum síðan, áður en tugir kvenna sökuðu hann um kynferðisofbeldi og hann fór í fangelsi.
Dench og Weinstein á góðri stundu fyrir tuttugu árum síðan, áður en tugir kvenna sökuðu hann um kynferðisofbeldi og hann fór í fangelsi. Getty

Leikkonan Judi Dench hefur óvænt komið framleiðandanum Harvey Weinstein til varnar og segir hann hafa þolað nóg. Hún segist hafa mikla samúð með fórnarlömbum hans og hafi verið heppin að lenda aldrei í honum í þeim tíu myndum sem þau gerðu sama. Weinstein hefur afplánað um fimm ár af 39 ára dómi.

Lafði Judi Dench, sem er af mörgum talin ein besta leikkona sem England hefur getið af sér, á 91 árs afmæli í dag og er hætt að leika eftir að hafa misst nánast alla sjón á síðustu árum. Hún ræddi við tímaritið Radio Times í tilefni afmælisins og heimildarmyndarinnar Judi Dench: Shakespeare, My Family and Me.

Dench fór um víðan völl í viðtalinu, ræddi versnandi sjón sína, skapið og kvekaratrú sína sem hún tók upp þegar hún gekk í einkarekinn kvekaraskóla í York sem barn. Lykilhluti af kvekaratrú er fyrirgefning og að allir, sama hver glæpurinn er, eigi skilið annað tækifæri.

Kvekarar (e. quakers) eru kristin kirkjudeild sem var stofnuð á 17. öld af George Fox og heitir formlega Vinasamfélagið (e. Society of Friends). Nafnið kvekari er dregið af sögninni að skjálfa (e. quake) og kom til þegar George Fox sagði við dómara: „Skjálfið fyrir Guðs dómi.“ Kvekarar eru friðarsinnar, neita að bera vopn og trúa því að Guð sé í öllum mönnum og „hið innra ljós“ leiðbeini þeim.

Heldur bandi við Spacey og fyrirgefur Weinstein

Fyrst verið var að ræða fyrirgefningu ákvað blaðamaður Radio Times að spyrja Dench út í leikarann Kevin Spacey og framleiðandann Harvey Weinstein. Báðir voru bornir þungum sökum um kynferðislega áreitni og ofbeldi í kjölfar #MeToo-bylgjunnar. Spacey var á endanum sýknaður af ákærum um kynferðisbrot gegn fjórum mönnum en Weinstein hlaut 39 ára fangelsisdóm fyrir fjölda brota.

Sjá einnig: Kevin Spacey létt eftir sýknudóm

Dench var mjög góð vinkona beggja manna. Hún hefur lýst því að Spacey hafi verið henni mikil huggun þegar eiginmaður hennar, Michael Williams, lést árið 2001. Weinstein hjálpaði Dench að skapa sér feril í Hollywood og framleiddi tíu myndir sem hún lék í, þeirra þekktust er Shakespeare in Love (1998) sem hún fékk Óskarsverðlaun fyrir.

„Kevin hefur verið hreinsaður af ásökunum og ég heyri í Kevin, við eigum í skilaboðasamskiptum. Ég sá myndband af Harvey gangandi með stafi og þú hugsar: „Jæja...“ Ég þekkti Harvey vel og vann með honum, ég lenti ekki í þessu - til allrar hamingju fyrir mig,“ sagði Dench í viðtalinu.

Weinstein fékk fyrst 23 ára fangelsisdóm og síðan bættust sextán ár þar við. Lítið hefur heyrst til hans undanfarið en hann hefur glímt við ýmsa heilsukvilla í fangelsi og var í fyrra greindu með langvinnt kyrningahvítblæði.

Harvey hefur verið heilsuveill undanfarin ár.Getty

„Ég hugsa að hann hafi þolað nóg,“ sagði Dench um Weinstein og þagnaði stuttlega. „Ég veit það ekki, fyrir mér er þetta persónulegt, fyrirgefning. Ég held...“ sagði hún en kláraði ekki setninguna og endaði umræðan þar.

Dench hefur áður tjáð sig um mál Weinstein, árið 2017 sagðist hún skelfd yfir ásökununum og lýsti yfir stuðningi við þolendur hans. Tveimur árum síðar sagði hún að fólk ætti að aðgreina persónur Weinstein og Spacey frá vinnu þeirra.

Til að taka upp léttara hjal spurði blaðamaður Radio Times hvort hún ætti eitthvað „stjörnuskot“ (e. celebrity crush). Þar stóð ekki á svörum og nefndi hún strax annan slaufaðan leikara, Johnny Depp, sem hefði eitt sinn nartað eyrnalokk af eyranu hennar.


Tengdar fréttir

Weinstein greindur með krabbamein

Kvikmyndaframleiðandinn og kynferðisbrotamaðurinn Harvey Weinstein hefur verið greindur með krabbamein, nánar tiltekið langvinnt kyrningahvítblæði.

Spacey á barmi gjaldþrots

Leikarinn Kevin Spacey er á barmi gjaldþrots og hefur selt heimili sitt í Baltimore svo hann geti borgað reikninga. Leikarinn galopnaði sig í viðtali við breska sjónvarpsmanninn Piers Morgan sem sýnt var í kvöld á Talk TV. 

Skjótt skipast veður í slaufun: Íhugar endurkomu

Johnny Depp íhugar nú að setja aftur á sig sjóræningjahattinn til að leika Jack Sparrow í sjöttu myndinni um sjóræningja Karabíska hafsins. Áður hafði Depp sagt að 300 milljónir dala myndu ekki nægja til að fá hann aftur í hlutverkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.