Lífið

Kristján Guð­munds­son látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Kristján Guðmundsson myndlistarmaður sýndi verk sín víða um heim.
Kristján Guðmundsson myndlistarmaður sýndi verk sín víða um heim. i8 Gallery

Kristján Guðmundsson myndlistarmaður er látinn, 84 ára að aldri. Hann var sjálflærður myndlistarmaður og einn stofnenda Gallerí SÚM. Hópurinn að baki SÚM olli straumhvörfum í íslenskri myndlistarsenu á sjöunda áratugnum.

i8 gallerí greinir frá þessu en Kristján starfaði með i8 frá stofnun þess árið 1995 og var þar með alls sjö einkasýningar. Kristján er einn þekktasti fulltrúi hugmyndalistar á Íslandi og sýndi verk sín víða um heim en einna helst í Evrópu og Bandaríkjunum, að sögn forsvarsmanna i8 gallerís.

„Hann fann fljótt sína eigin nálgun þar sem hann bræddi saman framúrstefnuhugmyndir sjöunda áratugarins við hina nýju hugmyndalist og sínar eigin hugmyndir um knappa, nauma framsetningu. Þannig tókust bókverk hans, teikningar og innsetningar á við eðli og takmörk hefðbundinna skilgreininga í listum og vísindum.“

Þá er rifjað upp að Kristján var valinn ásamt Sigurði, bróður sínum, Hreini Friðfinnssyni og Þórði Ben Sveinssyni til að sýna við opnun Pompidou-safnsins í París árið 1977. Einnig hafi hann verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1982. Árið 1993 hlaut Kristján medalíu prins Eugen frá Svíakonungi, árið 2010 sænsku Carnegie verðlaunin og árið 2022 heiðursviðurkenningu myndlistarráðs fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

Kristján fæddist á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðarhreppi á Snæfellsnesi árið 1941. Foreldrar hans voru Áslaug Sigurðardóttir skrifstofumaður og Guðmundur Árnason, rammasmiður og listaverkasali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.