Fótbolti

Mark­vörður með skóflu á lofti í miðjum úr­slita­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru skrautlegar aðstæður í úrslitaleiknum í kanadísku úrvalsdeildinni.
Það voru skrautlegar aðstæður í úrslitaleiknum í kanadísku úrvalsdeildinni. @cplsoccer

Atlético Ottawa tryggði sér kanadíska úrvalsdeildartitilinn í fótbolta eftir sigur í skrautlegum og framlengdum leik í nótt.

Atlético Ottawa vann 2-1 sigur á Cavalry FC og vann sinn fyrsta kanadíska úrvalsdeildartitil.

Það voru aðstæðurnar sem svo sannarlega stálu senunni. Gríðarleg snjókoma bauð nefnilega upp á afar sérstakar aðstæður.

Töf varð á því að leikurinn hæfist vegna snjókomunnar. Starfsmenn notuðu snjóblásara og skóflur allt kvöldið til að hreinsa línurnar á TD Place-vellinum og leikmenn lögðu stundum hönd á plóg.

Markverðir liðanna sáust þannig með skóflu á lofti í miðjum leik.

Cavalry FC komst yfir þegar Fraser Aird skoraði úr vítaspyrnu á 32. mínútu, en David Rodriguez jafnaði metin með stórkostlegri hjólhestaspyrnu nokkrum mínútum síðar.

Rodriguez var maður kvöldsins því hann skoraði sigurmarkið á 106. mínútu, hans annað mark í leiknum, á velli sem nýbúið var að hreinsa af miklum snjó eftir að venjulegum leiktíma lauk.

Eftir fyrstu níutíu mínúturnar voru starfsmenn í tæpan klukkutíma að hreinsa völlinn af snjónum sem hafði hamlað sendingum og takmarkað marktækifæri allt kvöldið.

Cavalry FC reyndi hetjulega að jafna leikinn á lokamínútunum en vörn Ottawa stóðst álagið. Þegar lokaflautið gall brutust út gríðarleg fagnaðarlæti meðal heimamanna – sem voru enn fjölmennir þrátt fyrir slæmt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×