Fótbolti

Alexandra skoraði en hræði­legur fyrri hálf­leikur eyði­lagði allt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir skoraði sitt þriðja deildarmark á tímabilinu.
Alexandra Jóhannsdóttir skoraði sitt þriðja deildarmark á tímabilinu. Getty/Pat Elmont

Íslenska landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir var á skotskónum með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en markið hennar kom því miður alltof seint.

Kristianstad lá 4-2 á heimavelli á móti Djurgården eftir að hafa fengið á sig fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Alexandra minnkaði muninn á 86. mínútu leiksins en hún var í byrjunarliði Kristianstad. Markið skoraði hún með skalla eftir sendingu frá Viktoriu Persson.

Mollie Baker skoraði annað mark Kristianstad í uppbótatíma og lagði aðeins stöðuna.

Alexandra er þar með komin með 3 mörk í 22 leikjum í sænsku deildinni á þessu tímabili.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir var einnig í byrjunarliðinu en var tekin af velli á 70. mínútu.

Tapið var það þriðja í röð hjá Kristianstad í deildinni en liðið situr í sjötta sæti, tíu stigum á eftir Djurgården sem er í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×