Fótbolti

149 tyrk­neskir dómarar í bann vegna veð­mála

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dómari með rauða spjaldið á lofti í leik í Tyrklandi en þessi mynd tengist fréttinni ekki beint.
Dómari með rauða spjaldið á lofti í leik í Tyrklandi en þessi mynd tengist fréttinni ekki beint. EPA/TOLGA BOZOGLU

Tyrkneska knattspyrnusambandið hefur dæmt 149 dómara og aðstoðardómara í bann eftir að rannsókn leiddi í ljós að hundruð atvinnudómara í landinu áttu veðmálareikninga.

Bönn dómaranna vara frá átta til tólf mánuðum eftir alvarleika brotsins en þau hafa verið sett á fyrir þátttöku dómaranna í veðmálum. Rannsókn á þremur öðrum dómurum til viðbótar stendur enn yfir.

Listi yfir alla dómara sem hlutu refsingu var birtur á vefsíðu TFF.

Á mánudag var greint frá því að fimm ára rannsókn hefði leitt í ljós að 371 af 571 dómara ættu veðmálareikninga og að 152 þeirra hefðu verið virkir í veðmálum.

Þótt sumir hefðu aðeins veðjað einu sinni höfðu 42 veðjað á fleiri en þúsund fótboltaleiki. Einn dómari reyndist hafa lagt undir pening í 18.227 veðmálum.

Líkt og leikmönnum og þjálfurum er dómurum bannað að taka þátt í veðmálum samkvæmt agareglum TFF, sem og reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA og Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

„Það er siðferðiskreppa í tyrkneskum fótbolta. Það er engin uppbygging. Grundvallarvandamálið í kjarna tyrknesks fótbolta er siðferðilegt,“ sagði Ibrahim Haciosmanoglu, forseti tyrkneska knattspyrnusambandsins, við CNN á föstudag.

„Spyrjið hvaða dómara sem er, ef það er einn einasti sem hefur ekki fengið launin sín greidd, þá mun ég segja af mér sem forseti sambandsins. Reyndar bættum við laun þeirra í fyrra og aftur á þessu ári,“ sagði Haciosmanoglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×