Íslenski boltinn

„Kominn tími á sigur í Sam­bands­deildinni“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason byrjar þjálfaratíð sína hjá Breiðabliki á Evrópuslag.
Ólafur Ingi Skúlason byrjar þjálfaratíð sína hjá Breiðabliki á Evrópuslag. Sýn Sport

„Það er búið að vera nóg að gera en þetta er búið að vera mjög skemmtilegt,“ segir Ólafur Ingi Skúlason sem hefur þurft að hafa hraðar hendur sem nýr þjálfari Breiðabliks. Liðið tekur nefnilega á móti finnsku meisturunum í KuPS á Laugardalsvelli í dag, í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta.

Ólafur Ingi tók við Blikum á mánudaginn, eftir að Halldór Árnason var rekinn, og byrjar svo sannarlega á stóru verkefni. Viðtal við hann má sjá hér að neðan.

Leikurinn við KuPS hefst klukkan 16:45 og er í beinni útsendingu á Sýn Sport.

Klippa: Ólafur Ingi byrjar á stóru verkefni

Ólafur Ingi er spenntur og ánægður með fyrstu dagana hjá Breiðabliki:

„Hópurinn hefur tekið mér frábærlega. Þetta var eflaust sjokk fyrir marga, eðlilega, en ég hef ekkert fundið fyrir því. Ég hef bara fundið ótrúlega samstöðu innan hópsins og það hefur verið tekið vel á móti mér af þeim og öðrum innan Breiðabliks. Það er virkilega ánægjulegt og gefur manni aukið búst.“

Breiðablik hefur aldrei unnið leik í aðalkeppni Sambandsdeildarinnar en er nú með í keppninni í annað sinn. Möguleikinn er til staðar í dag:

„Þetta verður hörkuleikur, finnskir meistarar sem við erum að mæta. Góðir og vel drillaðir. En við erum galvaskir samt sem áður. Það er kominn tími á sigur í Sambandsdeildinni. Við erum staðráðnir í að gera eins vel og hægt er, og ef við verðum á toppi okkar leiks þá eigum við góða möguleika,“ sagði Ólafur Ingi sem var með skýr skilaboð til stuðningsmanna:

„Það þarf að klæða sig vel. Ískalt. En völlurinn er frábær sem er alveg geggjað. Við erum auðvitað ekki alveg á heimavelli. Við hefðum viljað geta gert það og verið á gervigrasinu en völlurinn hérna er frábær og það eru allir mjög spenntir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×